Patrik, sem er markvörður Viking í Noregi átti þátt í ótrúlegri atburðarrás í leik gegn Kristiansund um síðustu helgi. Leiknum lauk með 3-2 sigri Viking en undir lok leiks virtist allt ætla að sjóða upp úr þegar liðsfélögunum Patrik og David Brekalo lenti saman.

Þeir hnakkrifust á vellinum, Brekalo ýtti hressilega við Patrik sem gerði mikið úr snertingunni og lét sig falla með miklum tilþrifum að sögn Benedikts Bóasar, þáttastjórnanda Íþróttavikunnar.

,,Samherji hans kemur að honum, öskrar og ýtir í hann. Við höfum allir spilað fótbolta og höfum allir kynnst þessum markmönnum sem tryllast ef þeir þurfa aðeins að grípa í skófluna. Hvernig sló þetta þig Guðmundur?" sagði Benedikt Bóas og beindi spurningu sinni að einum af gesti þáttarins, íþróttalýsandanum Guðmundi Benediktssyni.

,,Þetta er það furðulegasta sem ég hef séð lengi, ég bara verð að viðurkenna það. Ég er ennþá að leita að myndbandi sem sýnir mér hvað varð til þess að þeim varð svona heitt í hamsi," svaraði Guðmundur.

Hörður Snævar Jónsson, blaðamaður, segir að atvikið sé eins steikt og það verður. ,,Ég hugsa að Patrik hafi bara haldið að þetta væri mótherji sinn, það væri það eina sem gæti útskýrt þetta fyrir mér."

Gummi Ben svaraði þá í léttum tón: ,,Er þetta nýr leikmaður sem hann hefur ekki séð áður? Þeir eru í andlitinu á hvor öðrum þarna áður en hann ýtir við Patrik og hann fellur náttúrulega með þessum tilþrifum, ég bara skil þetta ekki."

Liðsfélagarnir létu mynda sig saman eftir leik og það gefið til kynna að allir gangi sáttir frá þessi atviki. ,,Ég get ekki ímyndað mér að menn séu sáttir með þetta. Ég held að þessi varnarmaður sé ekki búinn að fyrirgefa honum þetta," sagði Benedikt Bóas, þáttastjórnandi í nýjum íþróttaþætti sem hóf göngu sína á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi.