Íslenska kvennalandsliðið kom saman til æfinga á dögunum og hóf lokaundirbúning sinn fyrir Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst í næsta mánuði. Varnarmaðurinn Guðrún Arnardóttir, leikmaður sænska meistaraliðsins Rosengard er spennt fyrir komandi verkefni og segir að íslenska landsliðið muni leggja allt í sölurnar í sínum riðli.

,,Það er mikill spenningur fyrir þessu. Virkilega gaman að landsliðið sé komið aftur saman og að hitta liðsfélagana aftur," segir Guðrún í samtali við Fréttablaðið. ,,Það er liðinn dágóður tími síðan að við sáumst síðast. Það er góð stemmning í hópnum þannig að það fylgir þessu eintóm gleði.

Guðrún segir því fylgja góð tilfinning að fara á Evrópumótið með Íslandi. ,,Ég tel okkur vera með mjög sterkan hóp sem og góðan liðsanda. Við höfum ekki sest niður og sett niður markmið fyrir mótið en þetta verður bara stuð og stemmning."

Ísland er í riðli með Frakklandi, Belgíu og Ítalíu á mótinu og Guðrún segir möguleika á sigri í öllum þessum leikjum.

,,Þegar að þú ert komin á lokamót þá eru bara sterk lið eftir. Ef við horfum á FIFA-heimslistann þá eru Belgía og Ítalía mjög nálægt okkur á listanum, Frakkarnir aðeins ofar en þetta er fótbolti, það getur allt gerst. Við munum leggja allt í sölurnar."

Guðrún er leikmaður sænska meistaraliðsins Rosengard. Hún gekk til liðs við félagið frá Djurgardens árið 2021, fyllti þar upp í skarð Glódísar Perlu og þar hefur Guðrún blómstrað.

,,Ég er mjög ánægð með tímann sem hefur liðið með Rosengard. Ég hef að mínu mati verið að bæta mig sem leikmaður og í þokkabót höfum við verið að vinna leiki. Það gengur vel og það er eins í fótboltanum og lífinu sjálfu að ef þér gengur vel þá er gaman," segir Guðrún Arnardóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í samtali við Fréttablaðið.