Gunnar Nelson sneri aftur í bardagabúrið um helgina þegar að hann vann yfirburðarsigur gegn Takashi Sato á bardagakvöldi UFC sem haldið var í O2-höllinni í Lundúnum. Gunnar mætir aftur til æfinga í næstu viku og veit hvaða andstæðing hann myndi vilja mæta næst ef hann fengi að ráða.

Sá ber nafnið Santiago Ponzinibbio en þeir hafa mæst einu sinni áður á bardagakvöldi UFC í júlí árið 2017. Ponzinibbio vann á vafasaman hátt með því að pota ítrekað í augu Gunnars sem varð til þess að hann fór að sjá tvöfallt.

,,Ég hefði átt að láta dómarann vita af þessu vegna þess að allt frá þessu fór ég að sjá tvöfalt. Hann náði á mig höggi sem ég sá ekki," sagði Gunnar í viðtali eftir umræddan bardaga.

Gunnar vill að sjálfsögðu svara fyrir sig í öðrum bardaga og aðspurður að því hvort að hann vildi að næsti bardagi sinn væri gegn Ponzinibbio hafði Gunnar þetta að segja:

,,Ef ég fengi að velja, já," sagði Gunnar í viðtali við Fréttablaðið eftir bardaga sinn um helgina. Ponzinibbio situr í 14. sæti styrkleikarlistans yfir veltivigtina.