Sex leikmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta verða fjarri góðu gamni þegar liðið etur kappi við Dani í fyrstu umferð í milliriðli Evrópumótsins í Búdapest í kvöld.

Það eru markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson, sem stóð á milli stanganna í íslenska markinu stærstan hluta leikjanna í riðlakeppninni, fyrirliðinn Aron Pálmarsson, Elvar Örn Jónsson, sem myndað hefur miðjublokk með Ými Erni Gíslasyni, Ólafur Andrés Guðmundsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Bjarki Már Elísson.

Ljóst er að leikmenn sem hafa verið í aukahlutverkum í riðlakeppninni munu stíga fram á stóra sviðið í leiknum í kvöld.

Þannig mun Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður danska liðsins GOG, líklega fá traustið í íslenska markinu en hann varð fjögur skot í leikjunum þremur í riðlakeppninni. Ágúst Elí Björgvinsson, sem ver mark Kolding í Danmörku, verður svo Viktori Gísla til halds og trausts.

Báðir leikmennirnir sem leikið hafa í stöðu vinstri skyttu í riðlakeppninni, FH-ingarnar Aron og Ólafur Andrés, verða fjarri góðu gamni í kvöld.

Elvar Örn Jónsson skilur svo eftir stig stórt skarð í miðri vörn íslenska liðsins og Elliði Snær Viðarsson er líklegur til þess að mynda teymi með Ými Erni í miðjublokkinni gegn ógnarsterku liði Dana.

Það er vonandi að öxlin verði fersk sem lengst hjá Janusi Daða Smárasyni í kvöld.
Fréttablaðið/Getty

Janus Daði Smárason, sem átti frábæra innkomu inn á miðjuna í sigrinum gegn Hollandi mun spila í stöðu vinstri skyttu og leikstjórnanda.

Janus Daði hefur verið að glíma við axlarmeiðsli í aðdraganda mótsins og spurning hvort að hann geti spilað allan leiknnn en hann mun þurfa að skila varnarvinnu sömuleiðis.

Elvar Ásgeirsson, leikmaður franska liðsins Nacy, sem ekkert hefur spilað á mótinu til þessa og raunar ekki spilað A-landsleik, gæti leyst hann af hólmi í vinstri skyttustöðunni á einhverjum tímapunkti í leiknum.

Meira mun mæða á Viggó Kristjánssyni en hingað til í keppninni en hann og Ómar Ingi Magnússon munu skipta á milli sín miðjustöðunni og hægri skyttunni.

Það verður svo mikil ábyrgð á herðum Orra Freys Þorkelssonar, leikmanns Elverum í Noregi, en hann fær það verkefni að fylla skarð Bjarka Más Elíssonar í vinstra horninu.

Orri Freyr, sem hefur vermt varamannabekkinn allt mótið, hefur skorað eitt mark í þremur landsleikjum.

Arnar Freyr Arnarsson, sem átti góða innkomu inn í vörn íslenska liðsins, á móti Ungverjum fær líklega fleiri mínútur í hjarta varnarinnar í þessum leik og Daníel Þór Ingason, leikmaður Bailingen-Weilstetten kemur inn á bekkinn og er klár í slaginn í varnarleiknum ef með þarf.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari hefur valið þá fjórtán leikmenn sem mæta Dönum í kvöld í fyrsta leik strákanna okkar í milliriðli EM 2022. 20 leikmenn eru skráðir til leiks á EM og eru 14 á leikskýrslu fyrir leikinn í kvöld.

Leikmannahópurinn í dag er eftirfarandi:

Markverðir:

Ágúst Elí Björgvinsson, KIF Kolding (41/1)

Viktor Gísli Hallgrímsson, GOG Håndbold (28/1)

Aðrir leikmenn:

Arnar Freyr Arnarsson, MT Melsungen (66/76))

Daníel Þór Ingason, Bailingen-Weilstetten (34/9)

Elliði Snær Viðarsson, Gummersbach (16/17)

Elvar Ásgeirsson, Nancy (0/0)

Janus Daði Smárason, Frisch Auf Göppingen (52/69)

Kristján Örn Kristjánsson, Pays d´Aix Universite Club (14/18)

Orri Freyr Þorkelsson, Elverum (4/1)

Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg (59/165)

Sigvaldi Björn Guðjónsson, Vive Tauron Kielce (42/104)

Teitur Örn Einarsson, SG Flensburg-Handewitt (22/22)

Viggó Kristjánsson, TVB 1898 Stuttgart (24/59)

Ýmir Örn Gíslason, Die Rhein-Neckar Löwen (55/27)

Ýmir Örn Gíslason verður fyrirliði Íslands í dag.

Utan hóps í dag eru eftirtaldir leikmenn:

Aron Pálmarsson, Aalborg Håndbold (155/605)

Bjarki Már Elísson, TBV Lemgo Lippe (85/244)

Björgvin Páll Gústavsson, Valur (239/16)

Elvar Örn Jónsson, MT Melsungen (49/124)

Gísli Þorgeir Kristjánsson, SC Magdeburg (35/63)

Ólafur Andrés Guðmundsson, Montpellier Handball (136/268)