Veðmálasíður á Englandi telja Paulo Fonseca, fyrrum þjálfara Roma, Shakhtar, Porto og fleiri liða, líklegastan til að taka við Steve Bruce sem næsta þjálfara Newcastle eftir að Bruce var sagt upp í morgun.

Bruce var sagt upp störfum eftir rúm tvö ár í starfi fyrr í dag en nýjir eigendur félagsins eru með háleit markmið til framtíðar og fær nýr stjóri úr digrum sjóði að ráða.

Fréttablaðið tók saman nokkra stjóra sem þykja líklegir samkvæmt ensku veðmálasíðunum.

Paulo Fonseca - 48 ára frá Portúgal

Hinn 48 ára gamli Fonseca hefur komið víða við á sextán ára ferli sem þjálfari.. Leikmannaferilinn var ekkert til að hrópa húrra yfir og hófst þjálfaraferillinn í neðri deildum portúgalska boltans.

Hann fékk stóra tækifærið fertugur þegar hann var ráðinn til Porto en entist aðeins í nokkra mánuði í starfi þar. Titilvörn Porto olli vonbrigðum og var honum sagt upp í mars á fyrsta tímabili sínu.

Eftir að hafa náð betri árangri með Braga fékk Fonseca tækifæri sem þjálfari Shakhtar Donetsk og eftir að hafa unnið gott starf í Úkraínu fékk Fonseca tækifæri hjá Roma á Ítalíu en entist aðeins eitt ár þar.

fréttablaðið/getty

Lucien Favre, 63 ára frá Sviss

Favre hefur verið án starfs í tæpt ár frá því að honum var sagt upp störfum hjá Dortmund í desember síðastliðnum.

Góður árangur Favre með Nice í Frakklandi vakti athygli stjórnarformanna Dortmund en hann hefur stýrt liðum í Sviss, Þýskalandi og Frakklandi á tuttugu ára starfsferli.

Honum hefur yfirleitt tekist að koma liðum sínum í efri hluta deildarinnar og í baráttu um Evrópusæti en hefur aðeins unnið Ofurbikarinn í Þýskalandi undanfarin fjórtán ár.

fréttablaðið/getty

Steven Gerrard, 41 árs frá Englandi

Gerrard hefur vakið athygli fyrir frábæran árangur sinn með lið Glasgow Rangers undanfarin ár í fyrsta starfi sínu sem þjálfari. Gerrard lék á sínum tíma 504 leiki í ensku úrvalsdeildinni fyrir Liverpool.

Undir hans stjórn tókst Rangers að stöðva níu ára sigurgöngu erkifjendanna í Glasgow Celtic fyrr á þessu ári án þess að tapa leik í deildinni. Þá fór liðið í sextán liða úrslit í Evrópudeildinni.

Gerrard hefur ekki farið leynt með það að honum dreymi um að taka við uppeldisfélagi sínu, Liverpool, einn daginn en hann var orðaður við þjálfarastarfið hjá Newcastle fyrir tveimur árum síðan þegar Rafa Benitez lét af störfum í Newcastle.

Frank Lampard, 43 ára frá Englandi

Lampard bíður eftir nýju verkefni eftir að Lampard var rekinn frá Chelsea fyrr á þessu ári. Þrátt fyrir að vera goðsögn hjá Chelsea fékk Lampard stígvélið eftir eitt og hálft ár í starfi á Stamford Bridge.

Hann gerði góða hluti með Derby og á fyrsta ári sínu með Chelsea þegar félagið var í félagsskiptabanni þar sem hann gaf mörgum ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri á að stíga fyrstu skref sín með félaginu.

Lampard hefur aðdráttarafl sem einn af sigursælustu leikmönnum enskrar knattspyrnu undanfarna áratugi og gæti verið áhugaverður kostur fyrir Newcastle í átt sinni að toppnum.

Conte hefur unnið meistaratitil hjá síðustu þremur félagsliðum sem hann hefur þjálfað en ekki enst lengi í starfi
fréttablaðið/getty

Aðrir kostir

Fjölmargir aðrir hafa verið nefndir til sögunnar. Lengi vel var talið að fjárfestingahópurinn sem keypti Newcastle væri búið að ræða við Antonio Conte, fyrrum þjálfara Inter, Chelsea og Juventus um að taka við liðinu og voru eflaust margir stuðningsmenn Newcastle spenntir fyrir því að sjá Ítalann aftur í svarthvítu.

Líklegt er að Newcastle þurfi fyrst að taka eitt til tvö skref, festa sig í sessi í efri hluta deildarinnar og styrkja leikmannahópinn áður en Conte tekur við taumunum.

Meðal þeirra sem hafa verið nafngreindir í því samhengi eru Eddie Howe, Unai Emery, Jose Mourinho og Brendan Rodgers en Rodgers hefur sjálfur sagt að hann sé sáttur í herbúðum Leicester.

Þá hafa þjálfarar eins og Rafa Benitez, John Terry, Wayne Rooney og Graham Potter einnig verið nefndir til sögunnar.