„Þetta er skrýtin tilfinning, maður er ósátt með korter úti sem gerir út um þetta tveggja leikja einvígi en svo er maður jákvæður að vinna þennan leik. Það er erfitt að segja hvernig manni líður,“ sagði Karen Knútsdóttir eftir 32-31 sigur Íslands á Spáni í undankeppni HM í kvöld.

Það var ljóst að verkefni var gríðarlega erfitt eftir níu marka tap í fyrri leik liðanna á Spáni.

„Við hefðum helst þurft að vera yfir í hálfleik allaveganna til að gera þetta að leik en þær eru með hrikalega gott og hratt lið.“

Sóknarleikur Íslands gekk vel í leiknum.

„Það kom kafli þar sem við vorum ekki að nýta færin nægilega vel því okkur var að takast vel að opna þær. Spænska liðið er með öfluga markmenn sem var að taka nokkur dauðafæri hjá okkur en okkur tókst að halda haus allan leikinn og vinna hérna í dag.“

Aðspurð sagði Karen íslenska liðið hafa lært heilmargt af þessari undankeppni.

„Það er komin mun meiri breidd í hópinn hjá okkur, meiri samkeppni en áður var og fleiri stelpur sem koma til greina. Fyrir vikið eru komin meiri gæði æfingarnar og meiri ákefð og það skilar sér út í leikina. Þessi undankeppni var skref í rétta átt.“