„Þessi tilfinning þreytist ekki og í raun virðast titlarnir alltaf toppa þá fyrri. Ég held að þessi verði sérstaklega eftirminnilegur því ég fann það daginn eftir leikinn að það var ákveðinn doði vitandi að kafla okkar í Safamýrinni sé lokið.

Fyrir vikið er maður ótrúlega þakklátur að hafa náð að ljúka þeim kafla með titli,“ segir Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, spurð hvort Íslandsmeistaratitill liðsins um helgina hafi haft aukna þýðingu í ljósi þeirra tímamóta sem eru fram undan hjá sigursælasta félagi landsins í kvennaboltanum.

„Það gefur þessum titli svolítið aukna vigt og ég er viss um það þegar ég lít til baka seinna meir að þessi verður mér mikilvægur til lengri tíma.“

Steinunn er, eins og nokkrar úr kjarna liðsins sem voru að fagna fjórða Íslandsmeistaratitli félagsins á síðustu níu árum, svo gott sem uppalin í Framheimilinu. Það verða því viðbrigði þegar Fram hefur nýjan kafla í sögu félagsins þegar það flytur starfsemi sína í Úlfarsárdal á næstu mánuðum.

„Það er auðvitað erfitt að fullyrða en fyrir mér hefur þetta verið einstakt tímabil og Safamýrin eins og æskuheimili. Að hafa fengið að vera þarna í Framheimilinu í allan þennan tíma þar sem fjölskyldan mín hefur verið stór hluti af þessu og bestu vinkonur,“ segir Steinunn og að það sé auðvitað um leið spennandi að taka þátt í nýjum kafla félagsins og er ekkert á því að láta staðar numið.

„Að sama skapi eru ótrúlega spennandi tímar fram undan, það kemur tilhlökkun fyrir því að fara í eitthvað nýtt, stærra og með frábærri umgjörð. Núna er maður auðvitað leiður yfir að vera að fara úr Safamýrinni en það verður spennandi að taka þátt í þessum nýja kafla félagsins. Ég er samningsbundin í ár í viðbót og er ekki að fara að leggja skóna á hilluna.“

Steinunn sneri aftur inn á völlinn í tæka tíð fyrir úrslitakeppnina, eftir að hafa slitið krossband síðasta vor. Stuttu áður en það gerðist var hún fjarverandi vegna höfuðhöggs og var því nýkomin af stað að nýju þegar hún meiddist illa í leik Íslands og Norður-Makedóníu.

Núna er maður auðvitað leiður yfir því að fara úr Safamýrinni en það verður spennandi að taka þátt í þessum nýja kafla félagsins.

„Það var ótrúlegt áfall að slíta krossbandið á þessum tíma. Ég var orðin aftur upp á mitt besta þegar krossbandið slitnar í landsleik í mars. Á þeim tímapunkti sá ég ekki endilega fram á að geta tekið þátt á þessu tímabili heldur, sem var erfitt að kyngja. Manni var skyndilega kippt út úr því sem maður elskar að gera en ég naut góðs stuðnings frá fjölskyldunni og sjúkraþjálfaranum.“

Steinunn vakti athygli þegar hún var komin aftur í lið Fram sex vikum eftir barnsburð og viðurkennir að það hafi um tíma verið erfitt að sitja á sér í endurhæfingunni.

„Sjúkraþjálfarinn minn, Rúnar Pálmarsson, sá vel um mig og sá til þess að ég myndi ekki fara of geyst af stað og fara eftir því sem fræðin segja. Hann var duglegur að minna mig á það, þótt það hafi verið komin ansi mikil eftirvænting í upphafi ársins þegar mér fannst ég vera tilbúin. Það voru margir sem slógu á létta strengi og höfðu orð á því að ég yrði enga stund að ná mér af þessu stuttu eftir að ég meiddist,“ segir Steinunn glettin.

Einvígið sjálft var gríðarlega spennandi. Þrír af fjórum leikjunum enduðu á eins marks sigri og í þeim fjórða var munurinn eitt mark þegar mínúta var eftir. Steinunn tekur undir að það hafi ekki verið margt sem skildi liðin að, aðspurð hvað hafi ráðið úrslitunum.

„Fyrst og fremst var þetta frábært einvígi. Það sem mér fannst skilja liðin að í lok dags voru litlu hlutirnir. Við vorum að fá þessi klóku en auðveldu mörk. Svo var Hafdís (innsk. Renötudóttir, markvörður Fram) frábær í einvíginu á meðan markmenn Vals náðu sér ekki jafn vel á strik.“

Steinunn fer fögrum orðum um Stefán Arnarson, þjálfara Fram, sem var að vinna sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil.

„Stefán er auðvitað frábær þjálfari. Hann nær alltaf að halda ótrúlega góðri liðsheild hjá liðunum sínum og gerir hlutina svo skemmtilega og um leið einfalda. Hann heldur liðunum sínum í frábæru standi og er um leið ótrúlega klókur.“