Knattspyrna karla á Íslandi stendur á krossgötum. Landsliðið er í frjálsu falli og deildarkeppnin á Íslandi hefur sjaldan verið á verri stað ef miðað er við styrkleikalista UEFA. Íslenska úrvalsdeildin er þar sú fjórða slakasta. Gíbraltar, Malta og Færeyjar eru á undan okkur. Ljóst er að grípa þarf í taumana og það af nokkrum krafti því afreksstarf í fótboltanum á undir högg að sækja.

Eins og hugsunin er núna eiga allir að fá að vera með, sem er í grunninn gott markmið en öflugt afreksstarf þarf að fylgja með.

Undirritaður var nú ekki merkilegur knattspyrnumaður á sínum yngri árum en þegar ég gekk upp í 2. flokk karla hjá Breiðabliki ákvað þjálfarinn að vísa mönnum sem ekki voru líklegir til afreka í burtu. Um var að ræða afreksstarf þó ekki væri talað neitt hátt um það.

Flokkurinn taldi þá rétt rúmlega 20 leikmenn og það voru þung spor fyrir suma unga menn þegar þeir fengu skilaboðin um að þeim væri ekki lengur boðið. Mættu hreinlega ekki mæta aftur.

Úr þessum fámenna hópi urðu til sex atvinnumenn. Nokkrir höfðu þegar farið í atvinnumennsku og enn fleiri skiluðu sér í efstu deild hér á landi. Ég slapp þegar niðurskurðarhnífurinn var mundaður, en það náði ekki lengra en það – sem segir meira um mig en starfið, sem var frábært.

Það er vonandi að kröftug umræða eigi sér stað í aðdraganda ársþings KSÍ sem fer fram í febrúar. Íþróttir eiga að vera fyrir alla en það þarf að setja meiri kraft og athygli á afreksstarfið svo hægt verði að snúa við blaðinu í íslenskum fótbolta.

Ef markmiðið er að skara fram úr þá er ekki hægt að bjóða öllum að vera með.

Hægt væri að fjölga æfingum yngri landsliða í miðri viku og skapa þannig öflugt umhverfi fyrir okkar bestu ungu leikmenn. Önnur leið væri að hefja sameiningu liða bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, þannig væri hægt að búa til stærri hóp af góðum leikmönnum sem hægt væri að sinna betur.

Þeir sem vilja svo vera með geta haldið áfram að æfa en á öðrum forsendum en þeir sem geta og stefna langt.