Knattspyrnumaðurinn Theodór Elmar Bjarnason, leikmaður KR, er ánægður með að hafa tekið skrefið heim í KR út atvinnumennsku, hann er fullviss um að KR eigi meira inni frá síðasta tímabili og ætlar sér Íslandsmeistaratitilinn með liðinu. Í þættinum 433.is fór hann yfir atvinnumannaferil sinn, meðal annars í Tyrklandi þar sem hann lenti í sérstökum aðstæðum og þá fer hann einnig yfir tíma sinn með KR núna og framtíðina.

Theodór Elmar er himinlifandi með að vera kominn aftur heim til Íslands að spila fótbolta eftir langan og farsælan atvinnumannaferil. ,,Maður er kominn aftur með ánægjuna á því að spila fótbolta aftur, ekki að hún hafi eitthvað horfið en það er bara miklu skemmtilegra þegar að maður er að gera þetta hérna heima í klefanum á Íslandi og spila fyrir lið sem maður brennur fyrir. Það er kominn nýr neisti í mann og ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu."

Hann segir margt spila þar inn í, meðal annars stemmningin milli leikmanna, samveruna með liðsfélögunum sem og tungumálið. ,,Þetta er meiri vinna og samkeppni úti í atvinnumennskunni. Það eru fleiri að bítast um sömu stöðu og maður þarf að vera meira á tánum. Þetta er að færast meira í þá áttina hér heima, sem er gott fyrir fótboltann sjálfan."

,,Við viljum vinna, það er stefnan ,alltaf"

Hann segir þó ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að leikmenn hér heima á Íslandi séu í mjög góðu líkamlegu standi. ,,Menn eru í almennilegu standi hér heima, líkamleg bygging skiptir miklu máli og maður sjálfur þarf að halda sér á tánum og ég hef engar áhyggjur af því, ég hef enn gaman að fótbolta og brenn fyrir KR. Ég hugsa að ég hafi aldrei verið eins professional eins og akkúrat núna. Ég set stefnuna á að vera einn af bestu mönnum mótsins á næsta tímabili og vinn þannig í vetur."

KR endaði í 3. sæti Pepsi-Max deildarinnar á síðasta tímabilinu, liðinu óx ásmegin þegar fór að líða á seinni hluta tímabilsins. ,,Seinni part tímabilsins held ég að við höfum unnið níu af tíu leikjum sem ég byrjaði. Við vorum að halda boltanum fínt, okkur vantaði kannski að skora fleiri mörk en mér fannst vera mikil framför í spilinu hjá okkur eftir því sem leið á."

Þriðja sætið er samt sem áður eitthvað sem er ekki liðið í Vesturbænum. ,,KR-ingar eru ekkert sáttir með að enda í 3. sæti. Við viljum vinna, það er stefnan alltaf."

Theodór Elmar á að baki landsleiki fyrir Íslands hönd
GettyImages

Kom ekkert annað til greina en KR

Theodór Elmar segir ekkert annað hafi komið til greina en KR þegar hann fór að huga að því að taka stefnuna heim. ,,Ég er mikill KR-ingur. Ég hef alltaf fylgst með leikjum KR, þekki marga af strákunum þarna, tengingin við félagið er bara mikil og þegar að maður er í þeirri aðstöðu að þurfa ekki að elta einhverja auka seðla þá fer maður auðvitað bara í æskufélagið að mínu mati."

Á Íslandi er undirbúningstímabilið lengra en á flestum stöðum. Theodór segist hafa þurft að stilla hausinn almennilega fyrir sitt fyrsta undirbúningstímabil á Íslandi í langan tíma. ,,Það er ekkert auðvelt að koma hingað í 15 metra á sekúndu og fara út að hlaupa en aftur á móti finnst mér eitthvað sjarmerandi við það. Maður er búinn að vera í sama farinu undanfarin 15 ár og þetta er bara eitthvað nýtt og spennandi fyrir mér. Þetta er ekkert farið að leggjast á mig."

Íslandsmótið hefst hins vegar fyrr en vanalega, núna mun það hefjast á páskunum. Mótið hefur verið lengt og undir lok tímabils verður deildinni skipt í tvo hluta þar sem efstu liðin munu berjast um titilinn og Evrópusæti, neðstu liðin munu reyna sleppa við fall.

,,Ég er persónulega mjög ánægður með þá breytingu, með þessu fáum við fleiri spennandi leiki bæði í topp- og botnbaráttunni. Það er mikilvægt til þess að draga áhorfendur á völlinn og halda áhuganum gangandi. Mér finnst þessi miðjumoðsleikir undir lok tímabils alltaf leiðinlegir, ég held að það verði minna um þá núna. Ég er spenntur fyrir þessu."

Ætlar sér Íslandsmeistaratitilinn

KR-ingar hafa verið að flakka á milli valla á undirbúningstímabilinu, verið er að skipta um gervigras á æfingavelli KR. Theodór Elmar segir aðstöðuna ekki vera eins og best verður á kosið. ,,En við látum þetta bara virka. Ég held að það verði þá bara þeim mun meiri ánægja þegar að við fáum að komast aftur á okkar eigin gervigras og við fáum vonandi einhvern auka kraft við það."

KR-ingar eru stórhuga á næstu árum en til stendur að fara í miklar breytingar á aðstöðu liðsins sem hefur lítið breyst síðan Theodór var síðast á mála hjá liðinu. ,,Það hefur því miður ekki verið gert nægilega mikið í þeim málum en við erum komin með fullt af frábæru fólki í stjórn og kringum KR sem er tilbúið að gera ýmislegt. Ég veit að eftir fimm ár mun þetta líta allt öðruvísi út."

En hvað mun næsta tímabil bera í skauti sér fyrir KR? ,,Við munum keppa um titilinn, það er enginn efi hjá mér og leikmannahópnum þótt við séum aðeins undir í umræðunni eins og staðan er núna. Það eru mistök þeirra sem vanmeta KR en ég veit að við verðum þarna við toppinn, það eru fleiri lið þarna sem hafa styrkt sig en ég hef trú á því að við munum standa uppi sem sigurvegarar."

Kjartan Henry og Theodór komu seint inn í liðið á síðasta tímabili. Theodór er handviss um að KR eigi mikið inni. ,,Síðan er Pálmi hættur í sinni vinnu og kominn í vinnu hjá KR, hann er stanslaust á einhverjum aukaæfingum og mjög líklega á sínu síðasta tímabili og vill enda þetta með stæl. Hann er mjög hungraður."

Rúnar Kristinsson er þjálfari KR og Thedór segir frábært að fá tækifæri til að vinna með honum. ,,Hann er yfirvegaður, menn hlusta á það sem hann segir. Það er enginn æsingur í honum en samt sem áður er hann ákveðinn og þægilegur í öllum mannlegum samskiptum. Hvort sem menn eru að spila eða ekki, finnur maður ekki fyrir pirringi innan hópsins."

Rúnar Kristinsson er þjálfari KR
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gaf eftir launin sín

Á atvinnumannaferli sínum reyndi Theodór Elmar meðal annars fyrir sér í Tyrklandi þar sem hann naut sín í botn. ,,Þetta er bara allt annar heimur, sérstaklega þarna úti í Tyrklandi. Maður vissi svo sem hvað maður væri að fara út í en þetta var ævintýri."

Fjárhagslegu hliðarnar áttu hins vegar eftir að binda enda á tíma hans þar. ,,Ég hefði alveg verið til í að vera lengur í Tyrklandi en efnahagurinn þar er bara eins og hann er, fyrir hafði verið erfitt fyrir mig að fá launin mín en það var kominn tími til að segja bless þar."

Það gekk mjög brösulega hjá Theodóri að fá greidd laun hjá einu af liði hans í Tyrklandi, Elazigspor. Það skók jarðskjálfti svæðið og þetta endaði á því að ég þurfti að gefa eftir launin mín til að félagið gæti byggt sig aftur upp. Það gekk nú ekki nógu vel hjá þeim því þeir virðast vera að falla úr þriðju deildinni núna. En mér þótti mjög vænt um mjög marga sem voru að vinna þar í kringum liðið, frábært fólk en það er miður hvernig þetta fór," segir Theodór Elmar Bjarnason, leikmaður KR í þættinum 433.is sem má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.