Knattspyrnumaðurinn Theódór Elmar Bjarnason hefur samið við gríska úrvalsdeildarliðið Lamia en félagið tilkynnti þetta á heimasíðu sinni í dag.

Theódór Elmar fer til Grikklands eftir að hafa leikið með tyrkneska liðinu Akhisarspor frá árinu 2019. Þar áður lék þessi uppaldi KR-ingur með Elazığspor ogGazişehir Gaziantep í Tyrklandi.

Hinn 33 ára gamli miðvallarleikmaður hefur einnig spilað með skoska liðinu Celtic, Lyn í Noregi, sænska liðinu Gautaborg og Randers og AGF í Danmörku.

Það er verk að vinna hjá Theódóri Elmari og liðsfélögum hans Lamia í framhaldinu en liðið situr á botni grísku úrvalsdeildarinnar með tvö stig eftir fyrstu tíu leiki sína í deildinni.