Theodór Elmar Bjarnason styrkti gamla félag sitt Elazigspor um níu milljónir um helgina til aðstoðar við uppbyggingu eftir að jarðskjálfti gekk yfir svæðið.

Elmar sem leikur í dag með Akhsarspor var í eitt ár samningsbundinn Elazigspor þegar hann kom fyrst til Tyrklands.

Íslendingavaktin vakti fyrst athygli á málinu en þar segir að Elmar hafi lagt til 63 þúsund evrur sem eru um níu milljónir íslenskra króna.

Talið er að fjörutíu manns hafi látist í jarðskjálftunum sem áttu sér stað þann 24. janúar síðastliðinn og hefur Elazigspor óskað eftir því að draga lið sitt úr keppni það sem eftir lifir tímabilsins.