Thelma Björk Einarsdóttir leikmaður kvennaliðs Vals í knattspyrnu hefur ákveðið að hætta knattspyrnuiðkun. Þetta var tilkynnt á facebook-síðu Vals í dag.

Thelma Björk hefur verið mikilvægur hlekkur í Valsliðinu undanfari ár en hún hefur leikið með Valsliðinu lungann úr ferli sínum. Fyrst frá því árið 2006 til 2014 og svo aftur frá 2016 fram á síðasta haust.

Hún hefur lyft Íslandsmeistaratitlinum sex sinnum með félaginu á þessum kafla og bikarmeistaratitlinum þrisvar sinnum. Auk þess að spila með Val lék Thelma Björk með Selfossi frá 2013 til 2015.

Alls lék hún 159 leiki með þessum liðum og skoraði sjö mörk. Þá lék hún 12 A-landsleiki á ferli sínum og spilaði einni með yngri landsliðum Íslands. Thelma Björk er annar leikmaður Íslandsmeistaraliðsins sem lætur staðar numið frá því að síðustu leiktíð lauk en áður tilkynnti Margrét Lára Viðarsdóttir um að skórnir væru komnir upp í hillu.