Albert Brynjar Ingason er sérstakur álitsgjafi Fréttablaðsins um liðin í Bestu deildin fyrir komandi tímabil. Hér kemur hann með álit sitt á Breiðabliki sem er spáð 4. sæti í spá Fréttablaðsins fyrir Bestu deildina.

Ef maður skoðar undirbúningstímabilið þá litu þeir virkilega vel út í Atlantic-bikarnum. Eftir það mót skilur maður að Lengjubikarinn hafi ekki gengið sem best. Þeir byrjuðu undirbúningstímabilið fyrr en aðrir og æfðu á fullri keyrslu. Ég horfi því meira í mjög góða frammistöðu þeirra í æfingamótinu úti þar sem þeir mátuðu sig við sterka andstæðinga.

Heilt yfir hefur þetta verið gott og góðu kaflarnir í Atlantic-mótinu voru mjög sterkir. Blikar ætla sér miklu meira en að enda í fjórða sæti, ég var mjög ánægður með að sjá Óskar Hrafn tala þannig að þeir ætli sér að berjast um titilinn. Það á að vera krafan og kannski er það svekkelsi að vera spáð fjórða sætinu þegar þeir voru nálægt þessu í fyrra. Þeir skoruðu langmest í fyrra og voru með sextán skoruðum mörkum fleiri en næsta lið.

Blikar hafa oft verið þekktir fyrir að koðna niður og missa taktinn þegar þeir eru nálægt þessu. Svo finna þeir oft taktinn þegar þetta er ekki lengur möguleiki. Í fyrra var það byrjunin sem var slök og liðið vann bara einn af fyrstu fjórum leikjunum. Þeir eru best spilandi liðið á landinu og með skemmtilega hugmyndafræði. Ef þeir byrja mótið vel eru þeir líklegir til þess að landa sigri.

Framherjastaðan gæti verið hausverkur, þeir höfðu landað Sævari Atla Magnússyni sem fór svo í atvinnumennsku. Pétur Theodór kom í vetur og sleit krossband, Árni Vilhjálmsson og Mikkelsen eru svo farnir. Omar Sowe er mættur og ef hann kemst í gang þá geta þeir fært Kristin Steindórsson út á vænginn. Omar þarf að byrja mótið vel og fá sjálfstraustið snemma. Ef það tekst ekki er Gísli Eyjólfsson líklega á kantinum og þá er miðjan sem var svo öflug í fyrra stórt spurningarmerki.

Alexander Helgi er farinn og þeir gætu saknað hans.Það eina sem Óskar vantar í starfinu er að vinna titil, Breiðablik hefur fengið mikið umtal síðustu ár enda spilað frábæran fótbolta. Ég held að flestir Blikar búist við að þetta verði árið, þeir ætla sér að taka toppsætið.