Sveinn Aron Guðjohnsen hefur verið að finna fjölina með sænska liðinu Elfsborg á tímabilinu. Þessi stóri og stæðilegi framherji hefur skorað 3 mörk í fyrstu sex leikjum sínum í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og segir það ekki íþyngjandi að bera hið fræga Guðjohnsen nafn.

Sveinn Aron var í viðtali við sænska miðilinn Fotbollskanalen á dögunum þar sem að hann sagði samanburðinn við föður sinn Eið Smára Guðjohnsen, fyrrum leikmann liða á borð við Chelsea og Barcelona og afa sinn Arnór Guðjohnsen, fyrrum atvinnu- og landsliðsmann í knattspyrnu ekki trufla sig.

,,Þetta hefur alltaf verið eðlilegur veruleiki fyrir mig. Ég þekki ekkert annað en að tilheyra þessari fjölskyldu þannig að fyrir mig er þetta mjög eðlilegt," segir Sveinn Aron og bætir við að honum þyki ekki erfitt að bera þetta fræga eftirnafn. ,,Ég hugsa ekki um það. Þetta hefur alltaf verið svona og mun alltaf vera svona."

Hann segir væntingarnar til sín aðallega koma frá honum sjálfum er hann er spurður að því hvort hann hafi fundið fyrir væntingum frá Íslendingum í tengslum við það að bera Guðjohnsen nafnið.

Sveinn Aron er ánægður með fyrstu ár sín í atvinnumennsku. ,,Tími minn á Ítalíu var ekki alveg nógu góður en þó svo að ég hafi ekki spilað mikið þá lærði ég helling á þessu"

Þá ólst hann upp í akademíu Barcelona á meðan að faðir hans var leikmaður liðsins. ,,Þegar að maður er svona ungur þá lærir maður margt og ég tók margt með mér þaðan. Svo þróast maður enn meira sem leikmaður eftir því sem maður nær lengra og líka eftir því undir hvaða þjálfurum maður spilar."

Viðtalið við Svein Aron í heild sinni má lesa hér.