Hamilton hefur unnið tvær síðustu keppnir í Brasilíu og nú síðast í Katar með þónokkrum yfirburðum og hefur tekist að saxa á forskot Verstappen á toppi stigakeppninnar. Sjöfaldi heimsmeistarinn eygir nú mögulegan áttunda heimsmeistaratitil sinn sem væri met í Formúlu 1.

Toto Wollf, liðsstjóri Mercedes, segir Hamilton vera upp á sitt besta núna. ,,Við höfum séð þetta áður hjá honum."

Hann segir mótlætið á tímabilinu hjá Hamilton, sem er vanari því að vera í fyrsta sætinu í stigakeppni ökumanna, styrkja hann. ,,Mótlætið færir hann á stað þar sem hann nær að virkja ofurkrafta hjá sér. Mótlætið sem hann lenti í Brasilíu kom þessu af stað, þeir vöktu upp ljónið" sagði Toto Wollf, liðsstjóri Mercedes eftir kappaksturinn í Katar í gær.

Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes
GettyImages

Hamilton þurfti á öllum hæfileikum sínum að halda í umræddri keppni í Brasilíu. Hann var hraðastur í tímatökum en var síðan dæmdur úr leik þar sem bilið sem myndaðist á DRS kerfi bílsins, sem er staðsett á afturvængá hans, reyndist of mikið.

Hann ræsti því aftastur í sprettkeppninni sem fór fram á laugardeginum en sýndi snilli sína og endaði í 5. sæti þar. Hann þurfti síðan að taka fimm sæta refsingu fyrir að hafa endurnýjað hluta í vél bílsins og ræsti því tíundi í Brasilíu en fór að lokum með sigur af hólmi.

GettyImages

Jafn skrýtið og það hljómar þá eru bæði Verstappen og Hamilton með örlögin í höndum sér nú þegar að tvær keppnir eru eftir af tímabilinu.

Verstappen gerði vel í kappakstrinum í Katar þrátt fyrir að hafa fengið 5 .sæta refsingu fyrir keppnina fyrir að hafa hundsað gul flögg á brautinni. Hann endaði í 2. sæti.

Sigri Hamilton næstu keppni í Sádi-Arabíu og Verstappen lendi í 2. sæti, munum við fá einvígi í síðustu keppni tímabilsins sem fer fram í Abu Dhabi