Sjö ökumenn í Formúlu 1 mótaröðinni eru með samning sem rennur út eftir tímabilið 2023 og á þessari stundu er ekki vitað hvort þeir haldi áfram í mótaröðinni fram yfir árið 2023.

Sjöfaldi heimsmeistarinn Sir Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes er einn þessara ökumanna en telja verður líklegra heldur en ekki að hann muni skrifa undir nýjan samning við liðið á næsta ári. Það hafa að minnsta kosti verið skilaboðin, bæði frá honum sem og Mercedes.

GettyImages

Nico Hulkenberg snýr aftur í Formúlu 1 á næsta tímabili en hvort það verði hans eina tímabil í endurkomunni á eftir að koma í ljós. Hulkenberg skrifaði nýverið undir eins árs samning hjá Haas og fyllir hann þar upp í sæti Mick Schumacher sem fékk samning sinn hjá liðinu ekki framlengdan. Mick er orðinn varaökumaður Mercedes.

Fréttablaðið/GettyImages

Kevin Magnussen, fyrsti ökumaður Haas, er einnig að renna út á samning hjá liðinu. Magnussen sneri aftur í Formúlu 1 fyrir síðasta tímabil og tókst að hafa betur gegn Mick Schumacher í innbyrðisbaráttu þeirra á milli. Magnussen er margreyndur ökumaður í Formúlu 1 og á sér langa sögu hjá liðinu. Forráðamenn Haas munu án efa vilja sjá hvernig honum gengur, eftir því sem líður á næsta tímabil, áður en þeir ákveða hvort semja eigi við Danann á nýjan leik.

Fréttablaðið/GettyImages

Ungstirnið Logan Sargeant fær stórt tækifæri hjá hinu sögufræga liði Williams á næsta ári. Logan er nýliði í Formúlu 1 og skrifaði undir eins árs samning við Williams og fyllir þar upp í sæti Nicholas Latifi fyrir næsta tímabil.

Fréttablaðið/GettyImages

Eftir kaflaskipt fyrstu tímabil í Formúlu 1 mun Yuki Tsunoda, ökumaður Alpha Tauri þurfa að sanna sig fyrir fullt og allt á næsta tímabili ætli hann sér að halda sæti sínu í mótaröðinni. Tsunoda mun þurfa að aka með nýjan liðsfélaga sér við hlið og verður áhugavert að sjá hvernig til tekst á næsta tímabili.

Fréttablaðið/GettyImages

Umræddur liðsfélagi Tsunoda verður Hollendingurinn Nyck de Vries. Nyck kom af krafti inn í Formúlu 1 á síðasta tímabili þegar að hann fyllti upp í skarð Alexander Albon hjá Williams í Monza-kappakstrinum. Frammistaða Nyck í þeim kappakstri varð til þess að Alpha Tauri ætlar sér að veðja á hann fyrir næsta tímabil og gaf honum eins árs samning.

Fréttablaðið/GettyImages

Kínverski ökumaðurinn Zhou Guanyu hefði viljað hala inn fleiri stigum á síðasta tímabili sem var einnig hans fyrsta í Formúlu 1 mótaröðinni. Zhou á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Alfa Romeo og mun þurfa að sanna það fyrir forráðamönnum liðsins að hann sé þess verðugur að halda sæti sínu.

Fréttablaðið/GettyImages