Þessi 30 ára leikmaður var valin besti leikmaður deildarinnar þegar Washington Mystics varð meistari á síðasta keppnistímabili en hún óskaði eftir því við forráðamenn deildarinnar að fá leyfi sökum veikinda sinna í upphafi næstu leiktíðar.

Elena Delle Donne er með Lyme-sjúkdóminn og hún telur það geta sett líf hennar í hættu að smitast af kórónaveirunni. Bandarísk sóttvarnaryfirvöld skilgreina Lyme-sjúkdómurinn hins vegar ekki sem undirliggjandi sjúkdóm sem veldur aukinni hættu á því að kórónaveirusmit verði lífshættulegt.

Af þeim sökum höfnuðu forráðamenn WNBA-deildarinnar beiðni hennar en þrír læknar voru fengnir til þess að fara yfir umsókn hennar.

„Þessi ákvörðun særir mig mikið þar sem ég tel að einstaklingur með Lyme-sjúkdóminn sé berskjaldaðri fyrir kórónaveirunni. Að mínu mati mun ég veikjast meira en fullfrískur einstaklingur ef ég smitast af veirunni," segir þessi öfluga körfuboltakona.

Þar sem WNBA-deildin varð ekki við ósk Elena Delle Donne þarf hún annað hvort að spila og auka líkurnar á að smitast af kórónaveirunni eða neita að spila og afsala sér þar af leiðandi launum sínum í sjálfskipuðu veikindaleyfi sínu.

„Ég hef ekki efni á því að vera launalaus til lengri tíma og ég hef þar að auki engan áhuga á að fara í stríð við WNBA-deildina. Þetta er ekki ákjósanleg staða sem ég er í þessa stundina," segir hún.