Martin Hermannsson skoraði 16 stig þegar lið hans, Valencia, lagði Tryggva Snær Hlinason og félaga hans hjá Zaragoza að velli í spænsku A-deild­inni í körfu­bolta karla á sunnudagskvöldið. Martin gekk til liðs við Valencia frá þýska liðinu Alba Berlin í sumar og Fréttablaðið ræddi við Martin um fyrstu mánuðina á nýjum stað.

„Mér hefur verið mjög vel tekið hér í Valencia og mér líður mjög vel bæði innan vallar og utan. Ég er reyndar einn hérna þar sem kærastan mín og barnið mitt hafa verið heima síðustu mánuðina. Það er erfitt að vera án þeirra en þau munu flytja út eftir nokkrar vikur. Svo get ég ekki fengið jafn margar heimsóknir og í eðlilegu árferði vegna kórónaveirufaraldursins. Mamma og bróðir minn eru reyndar hérna núna og það er mjög gott að fá þau í stutta heimsókn,“ segir Martin um tíma sinn í Valencia.

„Ég er í öðruvísi hlutverki hérna hjá Valencia en ég er vanur hjá þeim félagsliðum sem ég hef spilað fyrir og landsliðinu. Hérna er ég í þriggja leikstjórnenda róteringu þar sem spiltímanum er skipt nokkuð jafnt á milli okkar. Þá er leikstjórnandanum hjá liðinu ætlað að vera meira í því hlutverki að láta sóknarleikinn flæða en að sækja sjálfur að körfunni,“ segir bakvörðurinn öflugi.

„Ég get alveg viðurkennt að það tekur á þolinmæðina að vera ekki í lykilhlutverki eins og ég hef vanalega verið. Þetta er hins vegar eitthvað sem ég vissi áður en ég kom hingað og ég gerði góðan þriggja ára samning vitandi að báðir aðilar voru sammála um að það tæki tíma fyrir mig að koma mér almennilega inn í hlutina. Annar leikstjórnandinn sem ég er að rótera við er kominn á seinni hlutann á ferli sínum og ég býst við að hann fari eftir þetta tímabil. Þá verðum við tveir um þær mínútur sem í boði eru. Ég þarf bara að sýna þolinmæði og það mun ég gera. Ég hef engar áhyggjur af færri mínútum inni á vellinum og öðruvísi tölfræði hjá mér,“ segir Martin sem hefur bætt varnarleikinn.

„Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað þeir eru ánægður með mig í varnarleiknum. Ég finn það vel að ég hef bætt mig á þeim vettvangi eftir að ég kom hingað. Vörn er kannski ekki það fyrsta sem mönnum dettur í hug þegar rætt er um styrkleika mína en það er gaman að bæta vopnabúrið inni á vellinum og auka þau atriði sem ég get lagt fram til liðsins.“