Fjórfaldi heimsmeistarinn í Formúlu 1, Sebastian Vettel hefur ákveðið að láta gott heita af afskiptum sínum af mótaröðinni eftir yfirstandandi tímabil. Vettel, sem er nú ökumaður Aston Martin hefur skipað sér sess meðal bestu ökumanna mótaraðarinnar frá upphafi og þakkaróskum hefur rignt yfir hann síðan hann tilkynnti um ákvörðun sína fyrr í dag.

Meðal þeirra sem þakkar Vettel fyrir tímann í Formúlu 1 er sjöfaldi heimsmeistarinn Sir Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes sem hefur háð margar rimmurnar við Vettel:

,,Seb, það hefur verið sannur heiður að kalla þig minn keppinaut og einn meiri heiður að geta kallað þig vin minn. Þú skilur við mótaröðina á betri stað en þú komst að henni á sínum tíma og það á ávallt að vera markmiðið. Ég veit að það sem tekur við næst hjá þér verður spennandi, mikilsvert og þú munt njóta góðs af því. Ég elska þig vinur," skrifaði Hamilton í færslu á samfélagsmiðlum.

Vettel hefur verið Mick Schumacher, syni sjöfalda heimsmeistarans Michael Schumacher, sem faðir eftir að sá fyrrnefndi hóf að aka fyrir Haas í Formúlu 1. Mick er sorgmæddur yfir því að horfa á eftir vini sínum yfirgefa mótaröðina að tímabili loknu.

,,Á sama tíma er ég spenntur fyrir því að sjá næsta kafla í lífi þínu. Þú hefur verið og verður enn svo mikilvægur einstaklingur í mínu lífi og ég er þakklátur fyrir vináttu okkar," skrifar Mick í færslu á samfélagsmiðlum og bætir við:

,,Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mótaröðina sem við elskum báðir svo heitt. Ég get ekki beðið eftir okkar síðustu keppnum saman. Takk fyrir Seb, þú er mér innblástur."

Vettel vann sína heimsmeistaratitla með Red Bull Racing sem hyllir goðsögn í sögu liðsins:

,,Sebastian Vettel, þú ert maðurinn," segir í færslu á samfélagsmiðlum Red Bull Racing.