Guanyu Zhou, ökumaður Afla Romeo í Formúlu 1 segist þakklátur viðbragðsaðilum á Silverstone kappakstursbrautinni eftir að hafa lent í árekstri á upphafshring Formúlu 1 kappaksturs í gær sem varð til þess að bíll Zhou endaði á hvolfi og rann áfram á yfir 200 kílómetra hraða á klukkustund áður en hann skall á öryggisgirðingu.

Margir óttuðust það versta er þeir horfðu á atburðarrásina í beinni en betur fór en á horfðist og slapp Zhou frá atvikinu án teljandi meiðsla.

Hann ætti að verða klár fyrir kappakstur næstu helgar í Austurríki.

,,Takk fyrir öll hjartnæmu skilaboðin. Ég vil þakka viðbragðsaðilum á Silverstone, þeir voru frábærir. Ég ætla leggja allt í að komast aftur á brautina fyrir Austurríki," skrifaði Zhou í færslu á Twitter.

Rauðum flöggum var veifað og keppnin stöðvuð í rúmar 50 mínútur áður en ökumenn voru ræstir af stað á ný. Það var Carlo Sainz, ökumaður Ferrari sem bar sigur úr býtum. Hans fyrsti sigur á Formúlu 1 ferlinum.