Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, segist afar spenntur fyrir því að vinna með Eiði Smára Guðjohnsen. Sá síðarnefndi tók við sem aðalþjálfari liðsins á dögunum.

Eiður tekur við í kjölfar þess að Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson voru látnir fara eftir slakt gengi. Sigurvin Ólafsson verður aðstoðarmaður Eiðs hjá FH. Hann hefur stýrt Lengjudeildarliði KV í sumar, auk þess að vera aðstoðarþjálfari karlaliðs KR.

Eiður var þjálfari FH er Matthías samþykkti að snúa heim í Kaplakrika árið 2020 en var þó farinn og tekinn við stöðu aðstoðarþjálfara hjá karlalandsliðinu áður en Matthías kom heim frá Noregi, þar sem hann lék með Valarenga.

„Mér líst mjög vel á þetta. Það vita allir hvað Eiður hefur gert á sínum ferli og við lítum allir mjög upp til hans,“ sagði Matthías við 433.is í gær. „Ég ber rosalega mikla virðingu fyrir Eiði, leit upp til hans þegar ég var yngri. Ég hlakka til að læra af honum og heyra hvað hann hefur fram að færa.“

Eiður hefur unnið með afar stórum nöfnum í knattspyrnuheiminum í gegnum tíðina. „Hann hefur spilað fyrir ótrúlega marga góða þjálfara. Ég var að fara í gegnum þetta um daginn. Við erum að tala um Jose Mourinho, Pep Guardiola, Claudio Ranieri, Harry Redknapp, Ole Gunnar Solskjær og ég er pottþétt að gleyma fullt af mönnum. Hann er með gífurlega reynslu og ég, eins og aðrir í liðinu, hlakka gríðarlega til að læra af honum,“ sagði Matthías.