Björg­vin Páll Gústavs­son, mark­vörður Vals og ís­lenska lands­liðsins í hand­bolta segir að það verði gaman að sjá stjörnur fæðast í Origohöllinni á morgun þegar að Valur tekur á móti þýska stór­liðinu Flens­burg í Evrópu­deildinni. Leik­menn Flens­burg séu betri í hand­bolta en leik­menn Vals en að það skipti ekki alltaf máli í stóra sam­henginu.

Valsmenn hafa unnið báða leiki sína í riðlakeppninni til þessa og fá nú sína stærstu prófraun í keppninni.

„Það er mikil spenna fyrir þessum leik. Þetta er lið sem ég per­sónu­lega þekki mjög vel, ég hef spilað á móti þeim í Evrópu­keppni sem og þýsku úr­vals­deildinni," segir Björg­vin Páll í sam­tali við Frétta­blaðið

„Það er því eitt­hvað skrítið við þessa stund. Ég hef spilað í Meistara­deildinni áður, spilað í þessari Evrópu­deild en að gera það hér heima með Val, ís­lensku fé­lags­liði fyrir fullu húsi á Evrópu­kvöldi á móti einu besta liði heims er bara gæsa­húðar stund fyrir mig.“

Það að það sé upp­selt á leikinn, nokkrum dögum fyrir leik segi alla söguna.

„Það er mikill spenningur fyrir leiknum, bæði hjá leik­mönnum, stuðnings­mönnum sem og öllum að­dá­endum ís­lensks hand­bolta.

Það hefur gengið frá­bær­lega hingað til. Við höfum klárað tvo stór verk­efni með sóma, á móti góðu ung­versku liði sem og á erfiðum úti­velli á Spáni. Nú er stærsta próf­raunin fram undan þar sem við mætum liði eins og Flens­burg.“

Vals­menn hafi aldrei ætlað að mæta í riðla­keppnina sem eitt­hvað mæta sem eitt­hvað fall­byssu­fóður.

„Við höfum staðið við það hingað til. Ég hef ekki farið í einn leik með Val með það hugar­far að við séum að fara tapa leiknum og það breytist ekki.

Þó það sé erfitt að ætla sér að fara í leik til þess að ná sigri á móti Flens­burg þá er það ekki í myndinni fyrir okkur að leggjast niður. Við ætlum að mæta með okkar fulla hús á bak­við okkur, gera leik úr þessu og sjá hverju það skilar okkur.“

Leik­menn geri sér grein fyrir því að lið Flens­burg sé betra í hand­bolta

„En þetta snýst ekki alltaf um það. Þetta snýst líka um að nýta stóra sviðið á sem bestan máta.

Við erum með menn innan okkar raða sem hafa hingað til ekki verið hræddir við að taka stökkið fram og í sviðs­ljósið. Það verður gaman að sjá stjörnur fæðast hérna í Origohöllinni á morgun.“