Ís­lensku lands­liðin í hóp­fim­leikum héldu sam­eigin­legt keyrslu­mót í gærkvöldi til að undir­búa sig fyrir Evrópu­meistara­mótið í hóp­fim­leikum sem fer fram í Portúgal í byrjun desember.

Fjögur lið frá Ís­landi fara út að keppa í ár; Kvenna­lið, stúlkna­lið, karla­lið og blandað ung­linga­lið karla og kvenna. Kvenna- og stúlkna­liðin, líkt og fyrri ár, eru í miklum séns að taka titilinn heim og hafa bæði lið verið við stífar æfingar í haust til að undir­búa sig fyrir mótið.

Ís­lenska kvenna­lands­liðið hefur verið hárs­breidd frá Evrópu­meistara­titlinum á síðustu mótum eftir að hafa unnið titilinn í tví­gang á árum áður.

Andrea Sif Péturs­dóttir, fyriliði kvenna­lands­liðsins, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að liðið stefnir á sigur í ár.

„Það er komið nóg af þessu silfri sem við höfum náð í síðustu þrjú skipti. Þó maður stjórni ekki loka­út­kominni þar sem dómarnir hafa loka­orðið þá held ég að við höfum gert allt sem við getum til að komast á þann stað sem við viljum vera á,“ segir Andrea.

Myndbandið hér að neðan sýnir Andreu gera tvöfalt framheljarstökk með einni og hálfri skrúfu í upphitun á keyrslumótinu í gær.

„Meiri kvíði fyrir Co­vid heldur en mótinu“

Að sögn Andreu er góð stemming í liðinu og mikil liðsheild meðal liðsmanna.

„Við erum að koma úr tveimur félögum [Gerplu og Stjörnunni]. Það er ekki of mikið af mis­munandi á­herslum þannig við erum allar frekar sam­stilltar.“

Spurð um hvernig það hefur gengið að æfa í lið­s­í­þrótt í miðjum heimsfar­aldri, segir hún það hafa gengið frekar vel miðað við aðstæður.

„Við höfum verið með nokkrar í smit­gát en sem betur fer ekki misst neina í sótt­kví. Þetta gengur, en maður er alltaf smá smeykur. Það er meiri kvíði fyrir Co­vid heldur en mótinu,“ segir Andrea og bætir við hún muni anda léttar þegar allt liðið er komið út.

Íslenska stúlknalandsliðið mun líklegast keppa við Svía um titillinn í ár. Þær sýndu öflugar gólfæfingar í gærkvöldi.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Stefnir í hreina lendingarkeppni í Portúgal

Keppnis­salurinn er venju­lega troð­fullur þegar hóp­fim­leika­lands­liðin keyra sitt síðasta æfinga­mót fyrir stór­mót eins og EM og NM. Veiran setti hins vegar strik í reikninginn í kvöld og voru engir á­horf­endur.

Kepp­endur liðanna fjögurra kepptust því við að hvetja hvor aðra. Bæði kvenna- og stúlkna­liðið áttu flottan dag hins og keyrðu þær öflugar æfingar á öllum á­höldum. Stúlknaliðið gerði virkilega öflugar gólfæfingar og kvennaliðið var í sérflokki á trampólíni.

Íslensku liðin munu að öllum líkindum vera í mikilli keppni við sænsku landsliðin um Evrópumeistaratitlana í stúlkna- og kvennaflokki og gæti stefnt í hreina lendingarkeppni útí Portúgal, þar sem bæði löndin eru á pari hvað varðar erfiðleika. Í kvennaflokki er sænska liðið með ögn erfiðari stökk en íslenska liðið bætir upp mismunin með erfiðari gólfæfingum.

Karlaliðið öflugt þrátt fyrir meiðsli

Meiðsli hafa verið að hrjá karla­liðið en þeir sem eru heilir eru meira en til­búnir að halda uppi heiðri karla­hóp­fim­leika á Ís­landi. Þrír keppendur í karlaliðinu höfðu meiðst fyrir mótið í gær og bættust tveir við á meiðslalistann eftir daginn en ekki er vitað hversu alvarleg þau meiðsli eru.

Það var hins vegar gríðar­leg stemming í liðinu á keyrslu­æfingunni í gærkvöldi og sýndi Helgi Lax­dal hversu öflugur hann er á dýnunni og flaug manna hæst í síðustu umferðinni.

Meiðsli hafa verið að hrjá karlalandsliðið en þeir sem eru heilir eru tilbúnir í slaginn.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Tvö kvennalið í reynd

Evrópu­mótinu í fyrra var frestað vegna Covid og því eru þó­nokkrar í stúlkna­liðnu sem gætu í raun verið að keppa í full­orðins­flokki þar sem þær hafa náð aldri til. Það sama er uppi á teningnum hjá öðrum lands­liðum og verður því næstum tvö­föld keppni í kvenna­flokki á EM í ár.

Eftir keyrslumótið í kvöld funduðu landsliðsþjálfarar með keppendum en liðin hafa nú tvær vikur til að slípa það síðasta til áður en haldið verður út til Portúgal.

Kvennalandsliðið eftir keyrslumótið í gær.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson