SJohn Terry hefur sagt upp störfum sem aðstoðarmaður Dean Smith hjá karlaliði Aston Villa í knattspyrnu.

Terry hefur verið hluti af þjálfarateymi Smith hjá Aston Villa síðan í október árið 2018. Þar áður lék Terry með liðinu frá því árið 2017 en hann var fyrirliði liðsins í eina leiktíð.

„Mér finnst þetta vera rétti tímapunkturinn til þess að taka þessa erfiðu ákvörðun. Það er ekki sanngjarnt gagnvart Aston Villa að fara inn í komandi keppnistímabil á meðan hugur minn er ekki að fullu við verkefnið. Nú tekur við að verja tíma með fjölskyldu minni," segir Terry í samtali við enska fjölmiðla.

Terry segir metnað sinn liggja til þess að gerast knattspyrnustjóri og af orðum hans í enskum fjölmiðlum að dæma hefur hann fengið tilboð um að gerast stjóri bæði í Englandi og annars staðar í Evrópu.