Athygli vakti að maður að nafni Steinar lét að sér kveða á blaðamannafundinum þar sem íslenski hópurinn fyrir HM 2018 var tilkynntur.

Steinar þessi er ekki blaðamaður heldur tengdafaðir Ögmundar Kristinssonar sem var ekki valinn í HM-hópinn.

„Varðandi valið á markvörðum, var það faglegt eða úr fjölmiðlunum?“ sagði Steinar og beindi spurningu sinni að þjálfarateymi Íslands.

„Þeir koma nú allir úr dönsku deildinni, einn úr B-deildinni. Í sjónvarpsviðtali eftir Ameríkuferðina virtist þú [Heimir Hallgrímsson] ekki vera mjög sáttur með þá, vægt til að orða tekið. Þeir stóðu sig ekki vel í Ameríkuferðinni..

„Svo skiljið þið t.d. Ögmund eftir. Hann er að spila í hærri deild og var valinn í lið vikunnar tvisvar sinnum í röð og er með mikla reynslu úr landsliðinu. Það er greinilegt að hann er ekki inni í myndinni. Takk fyrir.“

Heimir tók þessu upphlaupi Steinars með stóískri ró. „Þetta er fjölmiðlafundur og við skulum leyfa þeim að skína,“ svaraði Eyjamaðurinn.

Afar skrautleg uppákoma svo ekki sé fastar að orði kveðið. Steinar var svo fyrstur manna til að yfirgefa blaðamannafundinn.