Erik ten Hag sat í dag sinn fyrsta blaðamannafund sem knattspyrnustjóri Manchester United en hann er nú formlega tekin við stjórnartaumunum á Old Trafford.

Ten Hag hefur fulla trú á því að hann geti komið Manchester United aftur á sigurbraut og rofið titlahefð Manchester City og Liverpool sem hafa einokað Englandsmeistaratitilinn undanfarin ár á meðan að Pep Guardiola og Jurgen Klopp eru enn við stjórnvölin hjá liðunum.

,,Á þessari stundu dáist ég að þeim báðum. Liverpool og Manchester City spila frábæra knattspyrnu en öll tímabil taka enda og annað hefst. Ég hlakka til að takast á við þessi lið og ég er viss um að fleiri lið vilji einnig binda enda á sigurgöngu þeirra," sagði Ten Hag á blaðamannafundi í dag.

Hann fór í fyrsta skipti á Old Trafford í dag. ,,Ég hef komið til Manchester áður en þetta er mitt fyrsta skipti á Old Trafford. Ég er hrifinn, mér líður eins og heima hjá mér nú þegar. Ég get ekki beðið eftir fyrsta leiknum fyrir framan fullan leikvang af fólki. Það verður spennandi upplifun."

Erik ten Hag virðir fyrir sér Leikhús draumanna, Old Trafford
Fréttablaðið/GettyImages

Hann vildi ekki setja fram tímaramma á því hvenær Manchester United gæti farið að berjast um titla aftur.

,,Ég hugsa ekki þannig á þessari stundu. Þetta er verkefni sem mun taka tíma. Við munum fara í alla leiki til þess að vinna þá og munum taka stöðuna hverju sinni. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu með því góða fólki sem er í kringum mig. Við erum með áætlun og nú þurfum við að setja hana í framkvæmd."

Búið er að ráða inn aðstoðarmenn Ten Hag en þeir Mitchell van der Gaag og Steve McClaren, sem er öllum hnútum kunnugur hjá Manchester United verða honum til halds og trausts.

Hann segist ekki vera að taka áhættu með því að taka að sér starf knattspyrnustjóra Manchester United á erfiðum tímapunkti í sögu félagsins en gengi liðsins á tímabilinu var langt undir væntingum.

,,Þetta félag hefur langa og stórkostlega sögu. Nú skulum við horfa til framtíðar. Ég er spenntur fyrir henni með fólkinu hér, leggjum hart að okkur sýnum 100% vilja fyrir verkefninu og þá er ég fullviss um að við getum náð árangri."

Markmiðin eru skýr hjá þessum unga knattspyrnustjóra sem gerði frábæra hluti hjá Ajax fyrir komuna til Manchester United.

,,Við þurfum leikmenn með jákvætt viðhorf. Leikmennirnir stjórna því hvernig við spilum en ég er með hugmyndina að því. Ég mun stilla upp mínu sterkasta liði og ná því besta úr þeim. Þetta snýst um að við náum árangri saman."

Stillti sér upp með treyju félagsins
Fréttablaðið/GettyImages