Sparkspekingurinn Paul Merson er á því að sendingar og fyrigjafir Trent Alexander-Arnold, bakvarðar Liverpool, séu sambærilegar við þær sem David Beckham sendi á glæsilegum ferli sínum.

Arnold lagði upp bæði mörk portúgalska landsliðsframherjans Diogo Jota þegar Liverpool tryggði sér sæti í úrslitaleik enska deildarbikarsins í fótbolta karla með 2-0 sigri gegn Arsenal á Emirates á fimmtudagskvöldið síðastliðið.

„Hann er gjörsamlega frábær. Það er talað um að hann geti ekki varist. Það er hins vegar klárlega þess virði að fórna því að hafa bakvörð sem er ekki magnaður varnarmaður þegar hann getur sótt eins og hann gerir," sagði Merson á Skysports um Arnold.

„Að leggja jafn mikið upp og hann gerir er gjörsamlega frábært. Fyrirgjafirnar sem hann sendir og viktin á sendingum eru nánast fullkomnar. Sendingarnar eru í sama gæðaflokki og David Beckham var að gera á sínum tíma.

Það er aldrei neitt panik þegar hann er að finna stað til að senda á og hann finnur alla jafna samherja sinn á hárnákvæman hátt," segir Merson enn fremur.

Arnold hefur gefið 15 stoðsendingar í 24 leikjum fyrir Liverpool á yfirstandandi leiktíð.