Kieran Maguire, sérfræðingur um fótboltafjármál telur ólíklegt að það fari svo að enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City verði fellt niður um deild fari svo að félagið verði sakfellt í ákæru ensku úrvalsdeildarinnar.
Enska úrvalsdeildin hefur ákært Manchester City í yfir 100 liðum og sakar félagið um að brjóta reglur um fjármál félaga.
Rannsókn hefur staðið yfir í fjögur ár en ákærurnar voru birtar í gær. Í yfirlýsingu segir að meint brot hafi átt sér stað frá 2009 til ársins 2018.
„Það yrði erfitt að réttlæta ákvörðun um að fella félagið niður um deildir nema sýnt væri fram á kerfisbundnar tilraunar til þess að rangfæra fjármál félagsins,“ sagði Kieran Maguire, sérfræðingur um fótboltafjármal í samtali við BBC Radio.
Til þess að réttlæta slíka ákvörðun þyrftu nánast allar ákærurnar gegn félaginu að vera staðfestar.
Kieran telur að alvarlegasta refsingin sem félagið gæti fengið yrði frádráttur á stigum þess. Ferlið fram undan verði langt.
„Þetta mun ekki taka fljótt af. Við erum að tala um yfir 100 ákærur, þá verðurðu að fá tíma til þess að koma upp yfir hundrað vörnum.“
Á áður óförnum slóðum
Jamie Jackson, blaðamaður The Guardian tjáði sig einnig um málið í samtali við BBC Radio.
„Þetta er nú þegar orðin stærsta fréttin í sögu ensku úrvalsdeildarinnar,“ segir Jackson í samtali við BBC Radio
„Um er að ræða áhyggjuefni fyrir Manchester City en líkt og yfirlýsing félagsins í gær gefur til kynna, virðast forráðamenn félagsins afar jákvæðir gagnvart sinni stöðu og vilja tækifæri til þess að hreinsa nafn sitt í eitt skipti fyrir öll.“
Málið sé hins vegar afar athyglisvert.
„Því ef félagið er sakfellt í fleiri en einum lið, hvað mun þá taka við? Við erum á áður óförnum slóðum hvað þetta varðar, myndi félagið bara fá sekt?“
Margir hafa lagt mat sitt á mögulegar refsingar sem Manchester City gæti fengið á sig verði félagið sakfellt. Einhverjir hafa kallað eftir því, verði það raunin að félagið verði sakfellt, að titlar þess á umræddum tímabilum verði teknir af þeim. Aðrir telja að frádráttur á stigum yrði hæfileg refsing á meðan að sumir hafa velt því fyrir sér hvort félagið verði fellt niður um deild.
„Verði félagið sakfellt, þá myndu einhverjir stíga fram og segja titla félagsins fengna með illa fengnu fé.