Einn besti leikmaður landsins í körfubolta, Brynjar Þór Björnsson, tilkynnti í gær að hann ætlaði ekki að spila einn af stórleikjum deildarinnar í kvöld þegar KR mætir Stjörnunni, vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Brynjar, sem er giftur Sigurrós Jónsdóttur heimilislækni, tilkynnti þetta á fésbókarsíðu sinni og fékk góðar undirtektir þó að formaður körfuboltadeildar KR hafi ekki verið sammála henni í samtali við Vísi.

Finnur Freyr Stefánsson, sem gerði KR að fimmföldum Íslandsmeisturum sem þjálfari, bendir á í ummælum á síðu Brynjars að 16 leikmenn og starfsmenn Bröndby séu nú í sóttkví eftir að fyrrverandi leikmaður liðsins mætti smitaður á leik liðsins á sunnudag. Íslenski landsliðsmaðurinn Hjörtur Hermannsson spilar með Bröndby og sat á varamannabekk í téðum leik. Finnur er nú þjálfari Horsens í Danmörku.

„Við erum að glíma við mjög alvarlegan smitsjúkdóm á Íslandi og það er líklega hægt að draga úr útbreiðslu hans með réttum aðgerðum,“ segir Brynjar í færslu sinni og heldur áfram: „Með því að forðast hópsamkomur á meðan óvissuástand ríkir þá gæti það skipt sköpum að bregðast við strax.

Flestir sem veikjast alvarlega gera það ekki fyrr en eftir 10-14 daga veikindi svo við erum ekki farin að sjá rétta mynd enn.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, Fréttablaðið/Vilhelm

Ég skora á íþróttahreyfinguna að taka fyrirtæki í landinu sér til fyrirmyndar og fresta hópsamkomum á meðan óvissuástand ríkir,“ segir Brynjar í lokaorðum sínum.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir að sambandið skoði stöðuna nánast stöðugt en um 20 leikir fóru fram á miðvikudag innan banda KKÍ. „Við höfum ekkert gefið út og munum ekkert gera því við fylgjum yfirvöldum í landinu. Heilbrigðisyfirvöld og almannavarnir hafa ekki verið með samkomubann og ekki beðið okkur um að hætta með íþróttaleiki.

Ég tel afar mikilvægt að við fylgjum yfirvöldum í þessum máli. Þau eru að gera sitt besta í þessu máli og við þurfum að hafa ró. Ég skil að fólk sé smeykt en skólar eru í gangi og fólk er enn að koma saman.

Það er risastór ákvörðun að fresta leikjum og hana tökum við þegar og ef við förum á þann stað.“

Stjórn Íþróttasambands fatlaðra í samráði við fagteymi ÍF ákvað á miðvikudag að fresta Íslandsmótinu í boccia, borðtennis og lyftingum sem og Íslandsleikum Special Olympics í frjálsum íþróttum sem fara áttu fram helgina 13.-15. mars vegna kórónaveirunnar. „Endanlegar ákvarðanir með önnur verkefni Íþróttasambands fatlaðra hérlendis sem erlendis liggja ekki fyrir að svo stöddu en upplýst verður um stöðu þeirra mála síðar,“ segir í tilkynningu ÍF.

Hannes segist hafa skilning á þessari frestun. „Við skoðum hlutina vel enda allir í þjóðfélaginu að velta þessu fyrir sér. Það er mikil aðgerð að stoppa íþróttakappleiki og eitthvað sem þarf að gerast í samráði við heilbrigðisyfirvöld.“