Telma Ívarsdóttir, ein af markmönnum kvennalandsliðsins, meiddist á æfingu kvennalandsliðsins í dag og er óvíst hversu alvarleg meiðslin eru.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Þorsteins Halldórssonar, þjálfara liðsins í dag.

Að sögn Þorsteins fór Telma í myndatöku á meðan hann var á leiðinni á blaðamannafundinn sem var í klukkustundar fjarlægð frá hóteli liðsins og að hann vonaðist til að þetta væri smávægilegt.

Áður var Cecilía Rán Rúnarsdóttir búin að meiðast á æfingu kvennalandsliðsins og kom Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving inn fyrir hana.

Þorsteinn segir að ákvörðun verði tekin síðar í dag hvort að það verði annar markvörður sem fái skilaboð um að vera reiðubúinn ef meiðsli Telmu reynist alvarleg.