Arnar Daði Arnarsson, þjálfari karlaliðs Gróttu í handbolta, hefur verið dæmdur í þriggja leikja bann vegna ummæla sinna í viðtali við mbl.is eftir leik ÍBV og Gróttu í Olísdeildinni. Aganefnd Handknattleikssambands Íslands telur að ummæli Arnars um dómara og dómgæslu leiksins skaði ímynd íþróttarinnar út á við.

Þann 7. apríl síðastliðinn barst aganefnd Handknattleikssambands Íslands erindi frá framkvæmdastjóra sambandsins vegna viðtals Arnars Daða Arnarssonar, þjálfara Gróttu, sem birtist á vef mbl.is þann 6. apríl 2022 eftir leik ÍBV og Gróttu í Olís deild karla. Einnig barst aganefndinni skýrsla dómara vegna háttsemi Arnars að leik loknum vegna þess sem dómarar telja móðgandi hegðunar í garð sín.

Niðurstaða aganefndarinnar var sú að dæma Arnar Daða í þriggja leikja bann sökum þess að ummæli hans feli í sér ósæmilega framkomu sem skaðað geti ímynd handknattleiksíþróttarinnar.

,,Aganefnd telur því ljóst að umrætt atvik uppfylli öll skilyrði 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og efni standa til að láta þjálfarann sæta viðurlögum í máli þessu og áréttar mikilvægi þess að þjálfarar líkt og leikmenn liða sýni í orðum og í verki þá almennu háttvísi og framkomu sem samboðin er handknattleiksíþróttinni. Þá verður þjálfaranum einnig gerð refsing vegna þeirra atvika sem áttu sér stað að leik loknum og um er getið í agaskýrslu dómara," segir í úrskurði aganefndar HSÍ sem hefur nú verið birtur.

Í úrskurðinum segir að framkvæmdastjóra HSÍ er heimilt að vísa til aganefndar atvikum sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega.

,,Aganefnd hefur farið yfir umrædd ummæli. Aganefnd tekur undir að þjálfarinn hefði í viðtalinu mátt viðhafa varfærnislegra orðalag og að téð ummæli séu honum ekki til framdráttar. Með vísan til fyrri fordæma verður við þessar aðstæður að gera greinarmun á, annars vegar ummælum sem fela í sér almenna gagnrýni á störf dómara og hins vegar alvarlegum aðdróttunum í garð einstakra aðila, ásakanir um óheiðarleika eða aðra viðlíka háttsemi. Telur nefndin að umrædd ummæli falli undir hvoru tveggja, en með orðum sínum gaf þjálfarinn dómurum leiksins að sök að draga taum annars liðsins. Slík háttsemi gengur gegn 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og eru til þess falllin að skaða ímynd íþróttarinnar út á við."

Hlær að niðurstöðu aganefndar

Arnar Daði hefur sjálfur brugðist við úrskurði aganefndarinnar í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem hann vitnar í úrskurðinn og hefur meðfylgjandi þrjú lyndistákn af hlægjandi manni.