Margir telja að Gary Lineker, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu sem og umsjónarmaður Match of the Day, sé að senda skýr skilaboð til BBC eftir að hann var settur til hliðar en svo komið fyrir aftur í starfi eftir að hafa gagnrýnt stefnu bresku ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttafólks opinberlega.
„Ef frelsi þýðir eitthvað, þá er það rétturinn til að segja fólki það sem það vill ekki heyra," eru skilaboðin sem eru grafin á vegg sem má sjá fyrir aftan Gary Lineker á nýrri forsíðumynd hans á samfélagsmiðlinum Twitter.

Það vakti mikla athygli á dögunum þegar að Lineker var settur til hliðar í starfi sínu hjá BBC eftir að hann deildi myndbandi á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem þar sem að innanríkisráðherra Bretlands, Suella Braverman, kynnti til leiks frumvarp bresku ríkisstjórnarinnar er sneri að „ólöglegum fólksflutningum“ yfir Ermarsundið.
Við myndbandið skrifaði Lineker að þessi stefna ríkisstjórnarinnar væri skelfileg, ótrúlegri grimmd væri beint að viðkvæmasta fólkinu. „Stefna sem var notuð í Þýskalandi fyrir nokkrum áratugum síðan. Og svo er það ég sem er ekki í lagi?“
Ótvíræð samstaða
Í kjölfar skrifa Lineker fóru þingmenn úr röðum breska Íhaldsflokksins að kalla eftir því að hann yrði rekinn úr starfi sínu. Það var síðan fyrir síðastliðna helgi sem BBC setti Lineker til hliðar í starfi.
Ríkisfjölmiðillinn gerði ráð fyrir því að þrátt fyrir þetta myndi dagskrá helgarinnar ganga smurt fyrir sig, en það gerði hún svo sannarlega ekki. Brotthvarf Lineker vakti upp reiði og hneykslun kollega hans sem tóku sig til og stóðu með Lineker, gáfu ekki kost á sér í störf helgarinnar.
Þar var um að ræða lýsendur, knattspyrnusérfræðinga, pródúsenta sem og aðra tæknimenn. Dagskrá BBC um síðastliðna helgi riðlaðist töluvert vegna þessa og gerðu þeir sem eftir stóðu á miðlum miðilsins fátt annað en að biðjast afsökunar á skerðingu dagskrárinnar.
Margra augu beindust að Match of the Day þættinum þar sem farið er yfir leiki laugardagsins í ensku úrvalsdeildinni, þáttinn sem Gary Lineker stýrir vanalega. Í þetta skiptið var annar maður í brúnni í fjarveru Lineker, hann hóf þáttinn á því að biðjast afsökunar því þátturinn yrði ekki með sama sniði og áður.
Lýsendur hefðu ekki verið á öllum leikjum, ekki naut við upphafsstef þáttarins sem var ekki kynntur inn sem Match of the Day, heldur Premier League Highlights.
Þátturinn stóð aðeins yfir í 20 mínútu, ekki voru sérfræðingar í setti til þess að greina leikina en áhorf fór upp um hálfa milljón en rúmlega 2,5 milljónir manna horfðu á þáttinn.
Tekinn aftur inn
Það var síðan á mánudaginn síðastliðinn sem BBC og Lineker gáfu frá sér yfirlýsingu þar sem greint var frá því að hann myndi snúa aftur til starfa.
„Ég vil þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn, sérstaklega kollegum mínum á BBC Sport sem sýndu magnaða samstöðu. Fótbolti er liðsíþrótt en stuðningur þeirra er ómetanlegur,“ skrifaði Lineker í yfirlýsingu. „Sama hversu erfiðir síðustu dagar hafa verið, þá eru þeir ekkert í líkingu við þær hörmungar sem fólk, sem þarf að flýja heimili sín vegna ofsókna, stríðs og leita skjóls í öðru landi, þarf að upplifa.“