Á miðvikudaginn næstkomandi mun framvindan í máli knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar líklegast skýrast, það er hvort málið og rannsóknin á hendur honum verði látin niður falla eða hvort ákært verði í málinu.

Lögfræðingar sem mbl.is hefur rætt við segja ýmislegt benda til þess að Gylfi Þór verði ákærður í málinu. Sú ályktun er einna helst dregin af þeirri staðreynd að trygging Gylfa Þórs var á dögunum aðeins framlengd um nokkra daga.

Talað sé um að það væri lítil ástæða fyrir lögregluna ytra að framlengja trygginguna um nokkra daga ef fella ætti málið niður á miðvikudaginn næstkomandi. Það sé einnig merki um að rannsókn lögreglu sé á lokametrunum.

Greint var frá því um helgina að Gylfi yrði áfram laus gegn tryggingu til miðvikudags. Gylfi var handtekinn á heimili sínu í Bretlandi þann 16. júlí á síðasta ári vegna gruns um að hafa brotið á ólögráða einstaklingi.

Gylfi hefur síðan þá verið laus gegn tryggingu en hefur ekkert tjáð sig um málið, þá hefur hann ekkert leikið með félagsliði sínu, enska úrvalsdeildarliðinu Everton eða íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu.