Blaðamenn í Bandaríkjunum fjalla um það í dag að aganefnd NFL-deildarinnar haldi áfram að funda um mál Deshaun Watson og að leikstjórnandinn eigi von á að minnsta kosti eins árs leikbanni fyrir kynferðisbrotamál.

Watson hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot af 25 mismunandi konum og aðrar hafa stigið fram og greint frá kynferðisofbeldi af hálfu Watson án þess að kæra.

Leikstjórnandinn bókaði tíma í nudd eða sjúkraþjálfun hjá konunum þar sem hann beraði sig og fór fram á kynferðislegar athafnir af þeirra hálfu.

Hann er búinn að ná samkomulagi við tuttugu þeirra um skaðabætur í einkamáli og dómstóll ákvað að fella eitt mál niður.

Dómstóll í Texas komst að niðurstöðu að hann yrði ekki kærður fyrir glæpsamlegt athæfi fyrr á þessu ári og var honum skipt til Cleveland Browns stuttu seinna sem bauð honum tímamótasamning í NFL-deildinni.

NFL-deildin getur enn refsað Watson og eru fordæmi fyrir því að einstaklingar séu dæmdir í ótímabundið bann innan vallar en Watson gæti kært úrskurðinn.