Samkvæmt heimildarmönnum Reuters er líklegt að yfirvöld í Katar eigi eftir að slaka á þungum refsingum þegar kemur að ölvun á almannafæri. Lokaundirbúningur mótsins fer fram þessa dagana þegar tveir mánuðir eru í fyrsta leik.

Samkvæmt reglum í Katar er óheimilt að vera ölvaður á almannafæri og eru aðeins nokkrir staðir sem bjóða upp á áfengi í olíuríkinu. Ölvun á almannafæri getur leitt til handtöku en yfirvöld virðast vera tilbúin að veita undanþágur í vetur.

Yfirvöld í Katar hafa hinsvegar samþykkt að veita fleiri stöðum tímabundið áfengisleyfi á meðan mótinu stendur og verður meðal annars hægt að versla bjór á leikvöngunum og í stuðningsmannasvæðinu (e. fan-zone).

Að sögn heimildarmanns Reuters gætu einstaklingar sem stofna til áfloga átt von á því að missa Hayya kortið sitt sem er um leið landvistarleyfi þeirra.