Guðmundur Ágúst Kristjánsson hefur í dag leik á lokamóti ársins á Áskorendamótaröð Evrópu. Mótið fer fram með breyttu sniði í ár, með færri þátttakendum, og um leið eru færri sæti í boði á Evrópumótaröðinni fyrir þá stigahæstu í lok tímabilsins.

Guðmundur á enn tölfræðilegan möguleika á að tryggja sér fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni fyrstur Íslendinga í karlaflokki, en þarf til þess að vinna mótið og treysta á hagstæð úrslit hjá öðrum kylfingum.

Guðmundur er með 16.803 stig í 46. sæti stigalistans. Fyrir sigur á lokamótinu fást 62.000 stig, sem myndu fleyta honum upp í fjórða sæti. Hann þyrfti þó að treysta á að stigasöfnun kylfinga sem eru í baráttunni um eitt af fimm efstu sætunum yrði lítil sem engin.

Með góðum árangri getur Guðmundur bætt besta árangur Íslendings á einu tímabili á Áskorendamótaröðinni. Það met er í eigu Birgis Leifs Hafþórssonar sem endaði í 37. sæti á sínum tíma.