Tékkland á enn von um að tryggja sér annað hvort öruggt sæti í lokakeppni HM 2019 í knattspyrnu kvenna eða þátttökurétt í umspili á mótinu sem haldið verður í Frakklandi næsta sumar. 

Tékkar fóru með 2-0-sigur af hólmi þegar liðið mætti Slóveníu í næstsíðustu umferð undankeppninnar þegar liðin áttust við í Tékklandi í dag. Það voru Katerina Svitkova og Petra Divisova sem skoruðu mörk Tékklands í leiknum. 

Eftir þennan sigur hefur tékkneska liðið 13 stig í þriðja sæti riðlakeppninnar, en þar fyrir ofan er Þýskaland með 15 stig og Ísland trónir svo á toppi riðilsins með 16 stig. 

Ísland og Þýskaland mætast í umferðinni á Laugardalsvelli á morgun, en íslenska liðið leikur svo við Tékkland í lokumferðinni. Þar gæti það ráðist hvort liðið fer áfram eða í umspilið.