Í skýrslu Forbes sem birtist um helgina, um fjárhagsleg áhrif kórónaveirufaraldursins á íþróttalíf í stærstu íþróttagreinum Bandaríkjanna, kemur fram að faraldurinn hafi kostað NBA, NHL, MLB, NFL og NCAA um 14,1 milljarð Bandaríkjadala í tekjutapi.

Í upphafi faraldursins áætlaði viðskiptatímaritið Forbes, sem sérhæfir sig í fjármálageiranum, að frestun íþróttaviðburða í tvo mánuði myndi kosta deildirnar allt að fimm milljarða en í ljós kom að sú upphæð reyndist aðeins hluti af tekjutapi deildanna.

Í byrjun mars á síðasta ári bárust fréttir af því að ákveðið hefði verið að fresta öllum leikjum NBA-deildarinnar í körfubolta á meðan leikur Denver Nuggets og Dallas Mavericks stóð yfir. Stuttu seinna fóru sömu fréttir að heyrast af NHL-deildinni í íshokkíi, MLB-deildinni í hafnabolta, úrslitakeppninni í háskólakörfuboltanum (e. NCAA March Madness) og stærri íþróttaviðburðum á borð við EM og Ólympíuleikana.

Með ströngum sóttvarnareglum og með úrslitakeppni í búbblu og styttingu tímabilsins tókst að ljúka tímabilinu í íshokkíi, hafnabolta, körfubolta og NFL-deildinni í amerískum ruðningi. Ekkert varð af úrslitakeppninni í háskólakörfubolta sem er einn af stærstu viðburðum bandarísks íþróttalífs ár hvert.

Leikirnir fóru flestir fram fyrir luktum dyrum, sem hafði gríðarleg fjárhagsleg áhrif, enda kemur stór hluti teknanna frá aðgangseyri.

Um 70 prósent af tekjum NHL-deildarinnar í íshokkíi koma frá áhorfendum á leikdegi en deildin fór nýstárlegar leiðir til að afla tekna, meðal annars með auglýsingum á hjálmum leikmanna. Með því tókst að brúa bilið og varð NHL aðeins af 720 milljónum í tekjum á milli tímabila. Til samanburðar varð NFL-deildin af fimm milljörðum, MLB-deildin í hafnabolta af 6,5 milljörðum dala, NCAA af milljarði dala og NBA-deildin af 780 milljónum dala.