Í nýjustu ársskýrslu Manchester United kemur fram að félagið hafi orðið af tekjum upp á sjötíu milljónir punda vegna áhrifa kórónaveirunnar á daglegan rekstur.

Tekjur félagsins minnkuðu um tuttugu prósent á milli ára og hafa ekki verið lægri í fimm ár.

Á nýafstöðnu tímabili komu 509 milljónir inn í kassann sem er 18,8% minna en árið áður þegar félagið skilaði meti í tekjuinnkomu með 627 milljónum.

Forráðamenn United vissu að tekjurnar yrðu minni þetta árið í ljósi þess að félagið var ekki í Meistaradeild Evrópu en búist var við að tekjurnar yrðu um 560-580 milljónir.