Í máli Klöru kom fram að tekjur KSÍ á árinu verði mun lægri en gert var ráð fyrir í áætlun sambandsins.

Helstu ástæðurnar sem eru taldar upp í fundargerð stjórnar KSÍ fyrir lægri tekjum eru meðal annars takmarkanir sem voru settar á sökum kórónuveirufaraldursins sem vörðu lengur en áætlað var.

Þá er einnig dregin fram sú staðreynd að miðasala á landsleiki íslenska karlalandsliðsins hafi verið dræm og þá voru fjárframlög frá Evrópska knattspyrnusambandinu lægri en gert var ráð fyrir.

Í máli Klöru frammi fyrir stjórn KSÍ kemur fram að rekstrargjöld séu í flestum tilfellum í samræmi við fjárhagsáætlun en einstaka liðir hafi þó farið framyfir áætlun.

Þá verður kostnaður við landslið Íslands lægri en gert var ráð fyrir og spá fyrir afkomu ársins hefur batnað frá sex mánaða uppgjöri.