Nokkrum dögum eftir að Kómoreyjar komust í útsláttarkeppni Afríkukeppninnar í fyrsta sinn komu upp tólf kórónaveirusmit í leikmannahóp Kómoreyja sem er ekki með leikhæfan markmann fyrir næsta leik.

Samkvæmt reglum Afríkukeppninnar skulu leikir fara fram ef lið geta teflt fram ellefu leikmönnum.

Ef enginn markmaður er til staðar skal útileikmaður setja á sig markmannshanska.

Moyadh Ousseini og Ali Ahamada greindust smitaðir í gær, nokkrum dögum eftir að Salim Ben Boina meiddist í leik liðsins gegn Gana. Þá er þjálfari liðsins, Amir Abdou, í hópi smitaðra.

Aðstoðarþjálfari Kómoreyja staðfesti að það væri búið að ákveða hvaða leikmaður stæði í markinu en vildi ekki segja hver það væri á blaðamannafundi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Kómoreyjar komast í lokakeppni Afríkukeppninnar og náðu eyjaskeggjar með sigri á Gana að komast áfram í útsláttarkeppnina í frumraun sinni í keppninni.

Þeirra bíður einvígi gegn heimamönnum í Kamerún í 16-liða úrslitunum á morgun.