Leikur Newcastle og Tottenham í ensku deildinni, sem hófst klukkan 15.30 var stöðvaður þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, vegna alvarlegra veikinda eins áhanganda Newcastle í stúkunni.

Það voru leikmenn inni á vellinum sem kölluðu eftir því að leikurinn yrði stöðvaður eftir að hafa fengið merki um neyðarástand í stúkunni.

Dómari leiksins, Andre Marriner, varð snarlega við því, en flestum er enn í fersku minni þegar, Cristian Erikssen leikmaður danska landsliðsins hné niður í leik Danmerkur og Finnlands á Evrópumótinu í sumar, vegna hjartaáfalls.

Eftir nokkurra mínútna hlé á leiknum sendi Marriner leikmenn til búningsklefa.

Sjá mátti leikmenn Tottenham hvetja lækna liðs síns til að veita aðstoð og hljóp læknir liðsins í kjölfarið með hjartastuðtæki upp í stúku.

Leiknum var framhaldið þegar ljóst varð að hinn veiki myndi ná sér. Hann var fluttur með sjúkrabíl á spítala og er að sögn með meðvitund.

Voru leikmönnum gefnar þrjár mínútur til að hita upp á ný og svo voru spilaðar sjö mínútur áður en blásið var til hálfleiks.

Staðan er 1 - 3 fyrir gestunum, Tottenham en þetta er fyrsti leikur Newcastle frá því tilkynnt var um nýja eigendur liðsins.

Aðdáendur Newcastle klæddu sig margir upp á til að fagna nýjum Saudi-Arabískum eigendum liðsins.
Fréttablaðið/EPA

Leiðrétting: Upphaflega sagði í fréttinni að hinn kunni knattspyrnudómari Anthony Taylor, sem dæmdi fyrrnefndan landsleik Danmerkur og Finnlands, hefði dæmt leikinn í dag. Það er ekki rétt og hefur fréttin verið leiðrétt.