Einstaklingur sem keypti það sem var á þeim tíma talið að væri boltinn í síðustu snertimarkssendingu Tom Brady seldi boltann á ný í nótt og þurfti að taka á sig tap upp á tæpar 55 milljónir íslenskra króna.

Boltinn seldist á tæpa 130 þúsund dali eða 18,3 milljónir íslenskra króna í nótt eftir að hafa selst á 518 þúsund dali, um 73,2 milljónir íslenskra króna fyrr á þessu ári ef miðað er við gengi dagsins í dag.

Hinn 44 ára Brady tilkynnti í byrjun árs að leikmannaferlinum væri lokið, nokkrum dögum eftir að hafa tapað gegn Los Angeles Rams í úrslitakeppni NFL-deildarinnar með Tampa Bay Buccaneers.

Fyrir vikið var gríðarleg eftirspurn eftir boltanum sem Mike Evans greip frá Brady undir lok leiksins gegn Rams sem var talið að væri síðasta snertimark Brady á 23 ára ferli sem telur sjö meistaratitla.

Boltinn seldist á 518 þúsund dali í mars en degi síðar tilkynnti Brady að honum hefði snúist hugur og að hann myndi taka slaginn á ný með liði Tampa Bay Buccaneers.

Í fyrstu umferð kastaði Brady fyrir snertimarki og var fyrrnefndur bolti því ekki lengur boltinn sem Brady kastaði fyrir síðasta snertimarki sínu.

Minjagripir sem tengjast Brady eru afar eftirsóknarverðir en boltinn sem Brady kastaði fyrir 600. snertimarki ferilsins var verðmetinn á hálfa milljón dala.