Átta leikir fóru fram í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld en þá hófst riðlakeppnin með leikjum í E - H riðlum keppninnar.

Napoli hafði betur á móti Liveprool í E-riðlinum með tveimur mörkum gegn engu en Dries Mertens skoraði fyrra mark ítalska liðsins úr vítaspyrnu.

Fernando Llorente sem kom til Napoli frá Tottenham Hotspur í sumar innsiglaði svo sigur heimamanna þegar hann nýtti sér sjaldséð mistök Virgil van Dijk.

Leikmenn Liverpool niðurlútur í Napoli í kvöld.

Haaland stimplaði sig inn á stóra sviðið

Í hinum leik E-riðilsins valtaði Salzburg yfir Genk 6-2 en þar skoraði norska ungstirnið Erling Braut Haaland þrennu og Hee-Chan Hwang, Dominik Szoboszlai og Andreas Ulmer skoruðu svo sitt markið hver fyrir austurríska liðið.

Jhon Lucumi og Mbwana Samata löguðu hins vegar stöðuna fyrir belgíska liðið.

Báðir leikirnir í F-riðlinum enduðu með jafntefli en í Mílanó skildu Inter Milan og Slavia Prag jöfn. Peter Olayinka kom tékkneska liðinu yfir en Nicolo Barella bjargaði stigi fyrir heimaliðið með marki sínu í uppbótartíma leiksins.

Borussia Dortmund og Barcelona gerðu svo markalaust jafntefli í leik liðanna í Þýsklandi.

Erling Braut Haaland er nafn sem knattspyrnuáhugamenn ættu að leggja á minnið.

Frank Lampard tapaði i fyrstu atrennu sinni

Lyon og Zenit Pétursborg sættust sömuleiðis á jafnan hlut í G-riðlinum. Sardar Azmoun náði þar forystunni fyrir rússneska liðið en Memphis Depay sá til þess að Lyon fengi stig þegar hann skoraði úr vítaspyrnu.

RB Leipzig gerði góða ferð til Portúgal en Timo Werner skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri liðsins gegn Benfica. Haris Seferovic minnkaði aftur á móti muninn fyrir Benfica undir lok leiksins.

Timo Werner skorar annað marka sinna fyrir RB Leipzig.

Frumraun Frank Lampard sem knattspyrnustjóri í Meistaradeild Evrópu gekk ekki vel þar sem lærisveinar hans hjá Chelsea lutu í lægra haldi fyrir Valencia með einu marki gegn engu. Þar var það Rodrigo sem skoraði sigurmark Valencia.

Ross Barkley fékk kjörið tækifæri til þess að jafna fyrir Chelsea en hann brenndi af vítapsyrnu. Skot hans úr spyrnunni fór í þverslána á marki Valencia.

Spútniklið síðasta tímabils, Ajax, hóf svo keppinina þetta árið af miklum krafti. Hollenska liðið vann sannfærandi 3-0 sigur gegn Lille. Quincy Promes, Edson Alvarez og Nicolas Tagliafico sáu um markaskorunina fyrir Ajax í þeim leik.

Frank Lampard var ekki ánægður með dómgæsluna í tapi Chelsea gegn Valencia.