Það gæti farið svo að úrslitin verði nokkurnvegin ráðin í milliriðli Íslands annað kvöld þegar helmingur leikja er búinn. Ef Danir vinna Króata og Frakkar vinna Íslendinga eru Danir og Frakkar komin langleiðina í undanúrslitin.

Á þessu stigi keppninnar er Ísland komið í annan af tveimur sex liða milliriðlum þar sem efstu tvö liðin í hvorum riuðli fara áfram í undanúrslit EM og liðið í þriðja sæti milliriðilsins leikur upp á fimmta sæti mótsins.

Liðin sem enda í í 4-6 sæti milliriðilsins enda í 7-12. sæti á mótinu þar sem sætaröðunin ræðst á stigafjölda í milliriðli og markatölu.

Eftir nauman sigur Dana á vængbrotnu liði Íslands í gær og tíu marka sigur Frakka á Hollandi eru Danir og Frakkar með fjögur stig, Ísland og Svartfjallaland með tvö stig og Holland og Króatía án stiga í milliriðli 1.

Staða riðilsins:

Frakkland 4 stig

Danmörk 4 stig

Ísland 2 stig

Svartfjallaland 2 stig

Holland 0 stig

Króatía 0 stig

Á morgun fer fram önnur umferð milliriðilsins þar sem lemstrað lið Íslands mætir Frökkum og Danir mæta Króötum. Ef Danir og Frakkar vinna þá leiki eru þau komin með sex stig, fjórum stigum á undan Íslandi þegar tveir leikir eru eftir.

Hvort sem Ísland myndi ná að jafna stigafjölda Frakka eða Dana þyrfti Ísland að treysta á að Svartfjallaland myndi vinna Holland og Frakkland en svo tapa með miklum mun gegn Íslandi.

Það er hinsvegar enn góður möguleiki á því að Ísland geti náð þriðja sæti milliriðilsins. Takist Strákunum okkar það fá þeir einn leik til viðbótar upp á fimmta sætið á mótinu.