Ísland laut í lægra haldi, 2-1, þegar liðið fékk Belgíu í heimsókn á Laugardalsvöllinn í fjórðu umferð riðlakeppninnar í A-deildar Þjóðadeildar UEFA í kvöld. Romelu Lukaku skoraði bæði mörk belgíska liðsins en Birkir Már Sævarsson var aftur á móti á skotskónum fyrir íslenska liðið.

Eftir að leikmenn Belga höfðu látið boltann ganga sín á milli lungann úr fyrstu tíu mínútum leiksins kom Romelu Lukaku gestunum yfir. Lukaku fékk þá boltann inni á vítateig íslenska liðsins, snéri á Hólmar Örn Eyjólfsson og Hörð Björgvin Magnússon og þrumaði boltanum í netið.

Í kjölfar þess að leikmenn íslenska liðsins lentu undir komu þeir út úr skotgröfunum og þegar tæpar 20 mínútur voru liðnar af leiknum sendi Rúnar Már Sigurjónsson huggulega stungusendingu á Birki Má Sævarsson sem kláraði færið af stakri prýði.

Birkir Már sem var að spila sinn 93. landsleik í kvöld skoraði þarna sitt annað landsliðsmark. Adam var hins vegar ekki lengi í paradís hjá íslenska liðinu.

Undir lok fyrri hálfleiks braut Hólmar Örn á Lukaku og vítaspyrna dæmd. Lukaku fór sjálfur á vítapunktinn og skoraði af feykilegu öryggi framhjá Rúnari Alex Rúnarssyni sem stóð á milli stanganna í íslenska markinu í þessum leik.

Hólmar Örn Eyjólfsson og Sverrir Ingi Ingason voru í hjarta íslensku varnarinnar.
Fréttablaðið/Anton

Ekkert var skoraði í seinni hálfleik og niðurstaðan þar af leiðandi 2-1 tap. Ísland er stigalaust á botni riðilsins. Þar sem Danmörk hafði betur gegn Englandi í leik liðanna í hinum leik riðilsins í kvöld er ljóst að íslenska liðiðmer fallið í B-deild keppninnar.

Belgía trónir hins vegar á toppi riðilsins með níu stig og Danmörk og England koma þar á eftir með sjö stig hvort lið.

Lið Íslands í leiknum: Markmaður: Rúnar Alex Rúnarsson. Vörn: Ari Freyr Skúlason, Hörður Björgvin Magnússon (Arnór Ingvi Traustason), Hólmar Örn Eyjólsson, Sverrir Ingi Ingason, Birkir Már Sævarsson. Miðja: Guðlaugur Victor Pálsson (Hjörtur Hermannson), Birkir Bjarnason (f), Rúnar Már Sigurjónsson (Jón Dagur Þorsteinsson). Sókn: Albert Guðmundsson (Kolbeinn Sigþórsson), Jón Daði Böðvarsson (Viðar Örn Kjartansson).

Albert Guðmundsson hóf leikinn í framlínu íslenska liðsins.
Fréttablaðið/Anton