Misheppnað stökk kostaði hina fimmtán ára gömlu Kamilu Valievu verðlaunasæti í einstaklingskeppninni á listskautum á Vetrarólympíuleikunum í dag.

Kamila var efst eftir skylduæfingarnar en datt nokkrum sinnum í frjálsum aðferðum (e. free skate).

Búið var að tilkynna að ef hún myndi bera sigur úr býtum í greininni yrði verðlaunaafhendingunni frestað á meðan mál hennar er enn til skoðunar hjá Alþjóðaólympíunefndinni og Alþjóðalyfjaeftirlitinu.

Valieva var á dögunum dæmd í bann af Alþjóðalyfjaeftirlitinu eftir að hún féll á lyfjaprófi þegar efnið trimetazidine fannst í sýni rússnesku skautakonunnar.

Alþjóðaíþróttadómstóllinn (e. Court of Arbitration for Sport) féllst fyrr í vikunni á beiðni rússnesku Ólympíunefndarinnar um að áfrýja keppnisbanni Valievu sem gerði henni kleift að keppa í einstaklingskeppninni.