Tammy Abraham fór á kostum í 4-2 sigri Chelsea á Úlfunum þegar enski framherjinn skoraði þrennu á rúmum tuttugu mínútum.

Fikayo Tomori kom Chelsea yfir með fyrsta marki sínu fyrir félagið áður en Abraham setti þrjú mörk, tvö í fyrri og eitt í upphafi seinni hálfleiks.

Úlfunum tókst að minnka muninn í 2-4 en komust ekki lengra áður en Mason Mount bætti við fimmta marki Chelsea.

Slök byrjun Wolves heldur því áfram en Úlfarnir eru, líkt og Watford, án sigurs á þessu tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Á Old Trafford dugaði mark Marcus Rashford heimamönnum til sigurs í 1-0 sigri Manchester United gegn Leicester.

Rashford krækti í vítaspyrnu á upphafsmínútunum og skoraði úr henni sjálfur. Leicester átti fín færi í leiknum en náði ekki að skora jöfnunarmark.

Tottenham blés til sýningar og afgreiddi Crystal Palace í fyrri hálfleik þar sem Spurs skoraði öll fjögur mörk leiksins í fyrri hálfleik.

Á sama tíma vann Southampton 1-0 sigur á Sheffield United á útivelli og Brighton og Burnley skildu jöfn 1-1 þar sem Jeff Hendrick bjargaði stigi fyrir Burnley í uppbótartíma.