Eftir að hafa klikkað á vítaspyrnu í Istanbul í úrslitaleik Chelsea og Liverpool í ofurbikar UEFA, fékk Tammy Abraham yfir sig fjölmörg heimskuleg ummæli frá tröllunum sem búa á samfélagsmiðlum. Í samtali við CNN segir Abraham að hann hafi farið inn í klefa og skoðað símann sinn. Þar sá hann hvað fólk á samfélagsmiðlum var að segja.

„Ég talaði við mömmu og hún var niðurbrotin og í tárum. Það er auðvitað ekkert sérstakt að sjá son sinn verða fyrir svona. Ég tel mig vera sterkan karakter og þetta hafði ekki mikil áhrif á mig en hafði greinilega áhrif á þá sem standa mér næst,“ segir sóknarmaðurinn.

Abraham skoraði 26 mörk fyrir Aston Villa á síðustu leiktíð, þar sem hann var í láni, og hjálpaði liðinu að komast upp í Úrvalsdeildina. Þegar hann skoraði fyrsta markið sitt í Úrvalsdeildinni fyrir Chelsea hljóp hann að Frank Lampard og knúsaði stjórann sinn. „Hann trúði á mig. Ég leit á bekkinn og sá hann fagna og mig langaði einfaldlega að taka þátt í því.

Ég var auðvitað hundóánægður með að klikka á vítinu og fékk yfir mig mörg ljót skilaboð en Frank studdi mig og lyfti mér upp þegar ég þurfti á því að halda. Strákarnir í liðinu líka, eitthvað sem ég þurfti á að halda.“

Faðir Abraham tók rasismanum á annan hátt en hann er fæddur í Nígeríu og flutti til Englands þegar rasismi var öðruvísi. „Hann sagði við mig að þetta væru smámunir miðað við hvernig hlutirnir voru. Það er öðruvísi þegar fólk segir svona í andlitið á manni. Ég reyni ekki að hlusta á kjaftæði og vildi frekar láta verk mín inn á vellinum sjá um að tala fyrir mig.“

Raheem Sterling á fullri ferð.

Fjölmargir þeldökkir leikmenn hafa stigið fram fyrir skjöldu og þaga ekki lengur um rasismann sem þeir fá yfir sig. Paul Pogba, Romelu Lukaku, Raheem Sterling og Marcus Rashford hafa allir stigið fram að undanförnu og leytt hálfgerða byltingu gegn rasisma sem er við lýði í enska boltanum. Rashford, sem spilar fyrir Manchester United, studdi Abraham á Twitter, og Abraham steig fram og studdi Lukaku. Fjölmargir hafa stutt þá í orðum, meira að segja Vilhjálmur prins. „Það var ánægjulegt að heyra. En ég er í lagi,“ segir hann léttur.