Enska knattspyrnugoðsögnin David Beckham hefur legið undir mikilli gagnrýni undanfarna mánuði, allt frá því að hann tók að sér starf sendiherra Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fer nú fram í Katar. Nú hefur talsmaður hans svarað fyrir gagnrýnina.
Það var sem þyrnir í augum margra þegar tilkynnt var að Beckham yrði einn af sendiherrum HM í Katar, aðallega sökum mikillar gagnrýni á hendur stjórnvalda í ríkinu sem býr yfir slæmu orðspori er kemur að mannréttindum, ríki þar sem hinseginleiki er ólöglegur, ríki þar sem aðbúnaður farandverkamanna er sagður vera fyrir neðan allar hellur.
Lítið hefur heyrst úr herbúðum Beckham hvað varðar þessa gagnrýni en nú þegar HM í Katar fer að líða undir lok hefur talsmaður hans svarað.
,,David hefur tekið að sér mörg verkefni, bæði er varða Heimsmeistaramót í knattspyrnu sem og önnur stórmót, sem leikmaður og sendiherra. Hann hefur alltaf trú á því að íþróttir geti haft áhrif og knúið fram jákvæðar breytingar í heiminum," segir meðal annars í svari fulltrúa David Beckham sem birt er í The Sun.
Knattspyrna, vinsælasta íþrótt í heimi, hafi burði til þess að sameina fólk og leggja af mörkum raunverulegt framlag til samfélaga.
,,Við skiljum að það eru mismunandi skoðanir uppi með íhlutun í Mið-Austurlöndunum en við horfum á það jákvæðum augum að umræða um lykilmál hafi verið örvuð með fyrsta Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem haldið er á svæðinu."
Vonir standi til að þetta muni leiða til jákvæðra breytinga.